Heimilisráð gegn kláða
Oft á þessum árstíma þá þjást sumir af miklum kláða vegna frjókornaofnæmis. Mér skilst að það hafi verið mun minna af frjókornum þetta árið vegna veðurs en þrátt fyrir það þá þarf oft ekki mikið til til að kalla fram ofnæmiseinkenni hjá sumu fólki en þar sem við erum að tala almennt um kláða þá getur hann stafað frá ýmsu öðru eins og fæðuóþoli/ofnæmi, lifrarsjúkdómum eða húðsjúkdómum svo fátt eitt sé nefnt. Það er mikilvægt að reyna að finna orsökina að því hvað veldur kláðanum svo hægt sé að vinna á undirliggjandi ójafnvægi en það eru til nokkur einföld húsráð sem hægt er að grípa til í fyrstu og sjá hvort slái á kláðann áður en leitað er frekari leiða.
Kókosolía getur reynst vel til að draga úr kláða sem orsakast af þurri húð en kókosolían hefur verið notuð á exemhúð, þurrkubletti, þurrk í ytra eyra og þurrk í hársverði.
Haframjöl og matarsódi eru hvort tveggja kláðastillandi en þessu er ýmist blandað saman til að setja út í bað eða sem bakstur beint á húð þar sem kláðinn er. Þá eru 2 bollar af haframjöli sett í blandara og mulið í gróft duft, ¼ bolla af matarsóda hrært saman við og geymt saman í krukku og svo notaður 1 bolli af blöndunni út í heitt bað eftir þörfum. Ef gera á bakstur þá er 1 bolla af þessari sömu blöndu blandað við handfylli af heitu vatni þar til þykknar og smurt á húðina og filma sett yfir og látið vera í dágóða stund meðan húðin róast.
Salt er líka sefandi gegn kláða en hægt er að gera saltlausn úr sjávarsalti og heitu vatni og setja í svokallaðan neti pot (fæst í heilsubúðum) og hella smá af lausninni í nefið en þetta er gömul aðferð til að róa slímhúðina í nefgöngum.
Kamillu ilmkjarnaolía og lyktarlaust hreint grunnkrem gegn kláða og þurrki í augum. Þetta ráð hef ég reynt á eigin skinni en þegar ég var í náminu þá fékk ég svo mikinn augnkláða að einn kennarinn blandaði fyrir mig lítið glas af lyktarlausu hreinu grunnkremi og nokkrum dropum af German chamomille ilmkjarnaolíu og það sló strax á augnkláðann. Það væri t.d. hægt að nota hreina augnkremið frá Gamla apótekinu og blanda kamilluolíu saman við í litlu magni en passið að bera ekki þannig á augun að þetta fari beint inn í augun.
Smyrsli úr arfa eru kláðastillandi en arfinn er kælandi jurt fyrir húðina og útvortis hefur hann lengi verið notaður gegn kláða. Einnig má taka hann ferskan inn og nota t.d. í salat.
Brenninettlute til inntöku er kláðastillandi en það dregur úr histamínlosun í líkamanum og er líka blóðhreinsandi sem hefur einnig góð áhrif á að draga úr kláða. Vona að þetta nýtist ykkur.
Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www./pinterest.com/grasalaeknir