Heilsuvikan 2015 farin af stað í Sandgerði
Heilsu- og íþróttavika í Sandgerði er orðin að árlegri hefð þar sem Sandgerðingar, ungir sem aldnir, taka þátt í hinum ýmsu viðburðum.
Þetta er í þriðja skipti sem heilsu- og íþróttavika er haldin í bænum og hefur skapast sú hefð að hún fari fram í þeirri viku sem 5. mars ber upp en sá dagur er fæðingardagur Magnúsar Þórðarsonar íþróttafrumkvöðuls og á þeim degi er kjöri íþróttamanns Sandgerðisbæjar lýst ár hvert.
Þátttaka bæjarbúa hefur farið vaxandi ár frá ári og má segja að undirtektir síðustu tveggja ára hafi verið framar vonum. Það er von okkar að bæjarbúar taki áfram virkan þátt í dagskránni og geri vikuna enn eftirminnilegri í ár.
Heilsuvikan þetta árið hófst á Samkaupsmótinu í blaki í íþróttahúsinu í Sandgerði þar sem vel var mætt. Lið A stóðu uppi sem sigurvegarar og óskum við þeim innilega til hamingju.
„Þetta byrjar mjög vel, í morgun mættu yfir 30 þátttakendur í blakmótinu og áhorfendafjöldi var ekki minni. Margt sem fram fer í þessari viku eru viðburðir sem einnig voru í fyrra, eins og þetta blakmóti, Heilsuvikuhlaupið á morgun og brenniboltamótið á laugardaginn. Ég er þó spenntastur fyrir þriðjudeginum en þá verður bílalausi dagurinn. Það verður spennandi að sjá hvort heimafólk muni ekki sleppa því að keyra í vinnu þennan dag,“ sagði Sigurður Hilmar frístunda- og forvarnafulltrúi Sandgerðisbæjar glaður í bragði.