Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 29. mars 2000 kl. 15:27

Heilsutengd ferðaþjónusta á Suðurnesjum

Heilsutengd ferðaþjónusta hefur verið á Suðurnesjum frá 1983 þegar Hótel Bláa Lónið var opnað með það að markmiði að þjónusta psoriasis sjúklinga og aðra þá er leituðu sér lækninga við Bláa lónið. Bláa lónið er nú orðið heilsu- og afþreyingarþjónustufyrirtæki með geysi mikla fjárfestingu á bak við sig. Önnur stoðþjónusta hefur einnig byggst upp á svæðinu síðan. Samstarf þjónustufyrirtækja á svæðinu Johan D. Jónsson, markaðs- og ferðamálafulltrúi Reykjanesbæjar, segir að það skipti ferðaþjónustu á Suðurnesjum afar miklu máli að taka þátt í þessari uppbyggingu heilsuferðaþjónustu. „Áherslutími heilsutengdrar ferðaþjónustu ætti að vera rétt utan háannnar þannig að full nýting náist á þjónustuþætti. Með samstarfi gisti- veitinga- og heilsuræktarstaða, ætti að skapast möguleiki fyrir ferðaþjónustufyrirtæki, að byggja sig upp í samræmi við þá þróun sem verður við Bláa lónið. Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar hefur undanfarin ár lagt áherslu á að kynna ferðaþjónustu á Suðurnesjum og Bláa lónið í einum pakka til styrktar og eflingar hvoru öðru. Í stefnumótun þeirri, sem verið er að vinna að, verður sérstaklega komið inn á þann þátt. Framtíð ferðaþjónustu á Suðurnesjum verður mikið undir því komin hvernig til tekst við þau verkefni sem nú eru í gangi“, segir Johan. Hröð uppbygging Önnur afþreying verður að sjálfsögðu að vera til staðar fyrir ferðamenn, að sögn Johans, eins og styttri gönguferðir í námunda við hótel, veitingastaðir með heilsurétti, gott upplýsingastreymi og fleira. „Það er nokkuð hröð uppbygging afþreyingar á svæðinu eins og í hvalaskoðunar- og sjóveiðiferðum. Búið er að opna skagann fyrir útivistarfólki með merkingu gönguleiða, þó svo að þar sé enn ærið verkefni fyrir höndum. Það vantar víða aðstöðu við áfangastaði, tjaldsvæði, skála, salerni svo eithvað sé nefnt. Einnig þarf að gera sér ljóst með hvaða hætti og hvaða svæði verða ætluð til útivistar fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Allt hefur þetta áhrif á það hvernig þjónustan byggist upp og þróast og í hvernig umhverfi“, segir Johan og leggur áherslu á að Reykjanesbær muni bjóða upp á heilsutengda ferðaþjónustu og byggja hana upp til framtíðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024