Heilsuskóli Keilis með þjálfarabúðir á Ásbrú
Heilsuskóli Keilis stendur nú fyrir sínum öðrum þjálfarabúðum og hófust þær formlega í dag og standa til 26. febrúar. Í september 2010 komu yfir 120 þjálfarar og stór hluti hefur skráð sig á þessar.
Á vef Keilis segir að þjáfarabúðirnar hafi fengið þrjá frábæra þjálfara til liðs við sig. „Dave Jack mætir aftur en hann vann hug og hjörtu þátttakenda síðast og höfðu margir orð á að vilja sérstaklega fá hann aftur. Með honum koma Eric Cressey og Nick Tumminello. Útgangspunkturinn verður sem fyrr á styrktar- og ástandsþjálfun sem miðar að því að hámarka árangur og lágmarka meiðsli“.
Meðal efnistaka á Þjálfarabúðunum verða:
Áhrifaríkar og dýnamískar upphitunaraðferðir sem skila bestu mögulegu frammistöðu.
Þjálfunaraðferðir fyrir stöðugleika (core).
Kvið- og bakæfingar sem eru meiðslafyrirbyggjandi, styrkaukandi og frammistöðubætandi.
Líkamsstöðu- og hreyfigreiningar.
Allt um ákjósanlega þjálfun á meðan á endurhæfingu stendur og eftir að endurhæfingu er lokið.
Styrktarþjálfunaraðferðir til að lágmarka meiðsli á álagstímabili.
Hraða- og kraftaukandi æfingar.
Aðlögun styrktar- og þolæfinga eftir íþróttagreinum.
Nánar um þjálfarabúðirnar hér.
Myndirnar voru teknar í Andrews-leikhúsinu í gærkvöldi þar sem Dave Jack, sem er fyrirlesari í þjálfarabúðunum, hélt opinn fyrirlestur í boði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og Keilis um „Hvernig stuðlum við að bættri heilsu barnanna okkar?“