Heilsuöryggi er mál málanna
Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita framboða í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningnar 14. maí.
Margrét Þórarinsdóttir er oddviti Umbótar
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs fyrir þessar kosningar?
Heilsuöryggi er mál málanna eða heilbrigðisþjónustan. Við erum öll sammála um það. Við viljum skoða alla möguleika í þeim efnum eins og einkarekna heilsugæslu. Umfram allt þarf að pressa á ríkisvaldið að fjárveitingar fylgi íbúaþróun og álagi.
Velferðarmál eru mál er varða fjölskyldur, börn, eldri borgara og eru baráttumálin okkar. Við viljum sjá gjaldfrjálsar skólamáltíðir, jöfn tækifæri til náms, frístunda- og íþróttaiðkana. Úrræði til að auðvelda innflytjendum að aðlagast samfélaginu okkar. Finna leiðir til að styrkja og styðja við dagforeldra því á sama tíma eflum við atvinnulíf og styðjum fjölskyldur. Forvarnir eru okkur hugleiknar og viljum við fjölbreyttan stuðning við fjölskyldur, eldri borgara og fatlaða.
Íbúalýðræði og aðhald í stjórnsýslu. Íbúarnir eiga að hafa rödd um sitt nærumhverfi. Aðhald þarf í stjórnsýsluna, sem hefur blásið út á kjörtímabilinu.
Hvaða eitt, tvö málefni finnst þér vera efst á baugi hjá íbúum Reykjanesbæjar?
Heilbrigðisþjónustan. Hér hefur verið óviðunandi ástand og það hefur verið svoleiðis til fjölda ára.
Uppbygging innviða – íbúar hafa verið að koma og bent á ástand gatna, að það vanti daggæslu fyrir börnin, fatlaðir hafa komið og óskað eftir aukinni þjónustu, dagmæður hafa tjáð áhyggjur sínar og svo hafa bæjarbúar bent á hversu niðurníddur bærinn er orðinn.