Heilsuhúsið opnar á Hafnargötu
- Boðið upp á hollan mat í hádeginu
Heilsuhúsið hefur opnað nýja verslun að Hafnargötu 27. Verslunin var áður til húsa að Hringbraut en hefur nú fært sig yfir á helstu verslunargötu Reykjanesbæjar. Bryndís Líndal, verslunarsstjóri Heilsuhúsins í Reykjanesbæ, er ánægð með að Heilsuhúsið sé komið á Hafnargötuna.
„Það leggst rosalega vel í okkur að opna Heilsuhúsið á Hafnargötunni. Þetta er mun betri staðsetning en þar sem við vorum áður til húsa. Viðtökurnar hafa sýnt það og sannað,“ segir Bryndís. Nokkrar breytingar fylgja flutningi Heilsubúðarinnar yfir á Hafnargötuna.
„Helstu breytingarnar sem gerðar hafa verið við opnun Heilsuhússins á Hafnargötunni er að nú bjóðum við upp á safabar, ávexti, salatbakka, grænmetisbökur, kjúklinga og hummus vefjur o.fl. svo að nú getur fólk komið í hádeginu og fengið sér hollan og næringarríkan hádegismat. Við erum svo að sjálfsögðu áfram með nýbökuðu brauðin frá Brauðhúsinu Grímsbæ. Við erum alltaf með það nýjasta í heilsugeiranum og fylgjumst vel með hvað er að gerast.”
Bryndís segir að áhugi Suðurnesjamanna á heilsuvörum sé að aukast. „Já, það er mikil vakning heilsuvörum. Fólk er farið að hugsa betur um sig, hvað það setur ofan í sig og hvað það setur á húðina, en við bjóðum einnig upp á snyrtivörur sem innihalda engin óæskileg efni eins og t.d. paraben.“
Safabarinn í Heilsuhúsinu vekur eftirtekt en þar verður hægt að fá sér öllu hollari skot en á flestum börum bæjarins. „Við erum með lífrænan safabar sem þýðir að við bjóðum einungis upp á lífræna ávexti og lífrænt grænmeti. Á safabarnum getur þú fengið t.d engiferskot, hveitigras skot og ýmsa frábæra drykki.“
Hanna Ósk Ólafsdóttir, Bryndís Líndal og Hafdís Hildur Clausen taka á móti viðskiptavinum í Heilsuhúsinu í Reykjanesbæ.