Heilsugæslustöð á Aðaltorgi til framtíðar
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar er samstíga í málefnum heilsugæslu og þrýstir á heilbrigðisráðherra
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar segir það algjörlega óviðunandi að íbúar Suðurnesja verði látnir bíða svo lengi til ársins 2026 eftir byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar. Bæjarstjórn skorar jafnframt á heilbrigðisráðherra að ganga án tafar til samninga við aðila um leigu á aðstöðu fyrir heilsugæslu til þess að unnt sé að leysa þann bráðavanda sem til staðar er í heilbrigðismálum á Suðurnesjum og sér fyrir sér heilsugæslustöð til framtíðar við Aðaltorg.
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir sig samþykka því staðarvali á nýrri heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík sem fram kemur í frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á 610. fundi sínum þann 4. maí síðastliðinn áskorun til heilbrigðisráðherra um að tryggja starfsemi nýrrar heilsugæslu sem allra fyrst og alls ekki seinna en 1. október 2021. Samkvæmt frumathugun sem nú liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir að byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar verði lokið fyrr en í fyrsta lagi 2026. Það er að mati bæjarstjórnar algjörlega óviðunandi að íbúar Suðurnesja verði látnir bíða svo lengi eftir úrbótum sem skv. fyrirliggjandi frumathugun og áætlunum um íbúafjölgun duga þó ekki til.
Þá hvetur bæjarstjórn til þess að fram fari endurmat á Aðaltorgi í Reykjanesbæ sem framtíðarstað fyrir heilsugæslustöð þar sem horft verði til fyrirhugaðar uppbyggingar sem mun eiga sér stað á því svæði. Til staðar er húsnæði sem áður var nýtt sem gistiheimili og getur með minniháttar breytingum hentað mjög vel sem aðstaða fyrir heilsugæslu. Unnið er að gerð svæðiskipulags fyrir flugvöllinn og sveitarfélögin Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ. Þar mun Aðaltorg og svæðið þar í kring skipta miklu máli sem þjónustusvæði, bæði fyrir flugvöllinn en ekki síður fyrir sveitarfélögin.“
Allir bæjarfulltrúar stóðu saman að þessari bókun:
Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Þ. Guðmundsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Gunnar Þórarinsson (Á), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Margrét A. Sanders (D), Styrmir Gauti Fjeldsted (S) og Eydís Hentze Pétursdóttir (S), Gunnar Felix Rúnarsson (M).