Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Heilsugæslan í Grindavík fer í Víðihlíð og bæjarskrifstofur allar undir sama þak
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 2. ágúst 2023 kl. 06:16

Heilsugæslan í Grindavík fer í Víðihlíð og bæjarskrifstofur allar undir sama þak

Grindavíkurbær mun halda viðræðum áfram við ríkisvaldið varðandi málefni heilsugæslunnar en nú þegar hefur heilbrigðisráðherra samþykkt að leigja efri hæð nýbyggingarinnar sem rís við Víðihlíð. Þar á að verða fyrsta flokks heilsugæslustöð sem bæði mun sinna Grindvíkingum og vera þjónusta fyrir annað sem tengist Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Á sama tíma mun Grindavíkurbær kaupa húsnæði ríkisins sem nú hýsir heilsugæsluna en það húsnæði er á sömu hæð og bæjarskrifstofurnar í Grindavík. Þar með mun húsnæðisvandi bæjarskrifstofunnar leysast.

Fannari Jónassyni, bæjarstjóra, líst vel á þessar breytingar og bíður samþykkis frá fjármálaráðuneytinu. „Þessi hugmynd kom upp fyrir ekki svo löngu og yrði þetta mikið gæfuspor fyrir Grindavíkurbæ ef af þessu verður. Þarna væru í raun tvær flugur slegnar í einu höggi því þetta myndi leysa húsnæðisvandamál okkar á bæjarskrifstofunum en félagsþjónustan og fræðslusviðið hefur verið á hrakhólum síðan upp kom mygla á þriðju hæðinni á Víkurbrautinni þar sem bæjarskrifstofurnar eru. Núverandi húsnæði heilsugæslunnar er barn síns tíma en hentar Grindavíkurbæ fullkomlega.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bærinn mun kaupa húsnæðið af ríkinu sem myndi í leiðinni gera langtímaleigusamning við Grindavíkurbæ varðandi húsnæðið í Víðihlíð og þar myndi rísa fyrsta flokks heilsugæslustöð.

Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt þetta fyrir sitt leyti og við bíðum samþykkis fjármálaráðuneytisins sem allt bendir til að gangi eftir og ef af verður ættu þessir flutningar að geta farið í gegn næsta vor, auðvitað háð byggingartímanum í Víðihlíð,“ sagði Fannar.