Heilsugæslan flutt og fundaraðstaðan bætt
Útibú heilsugæslunnar í Vogum er nú flutt úr Iðndal í aðstöðu sem hefur verið útbúin í Álfagerði.
Móttaka heilsugæslulæknis er sem fyrr árdegis á þriðjudögum, og eru tímar bókaðir hjá HSS í Reykjanesbæ.
Framkvæmdir eru þegar hafnar við breytingu á húsnæðinu sem heilsugæslan var í áður. Í nýja rýminu verður m.a. nýr fundarsalur bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga og aðstaða fyrir starfsemi félagsþjónustunnar.
Fram til þessa hefur fundaraðstaða á bæjarskrifstofunum verið bágborin, eina fundarherbergið á skrifstofunni er jafnframt kaffistofa starfsfólks. Það er því löngu tímabært að bæta úr aðstöðuleysinu, og fagnaðarefni að lausn sé í sjónmáli, segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum í vikulegu fréttabréfi sínu.