Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 7. október 2008 kl. 14:57

Heilsuefling starfsmanna á ráðstefnu Heilsuleikskóla í Reykjanesbæ

Samtök Heilsuleikskóla halda ráðstefnu í Íþróttaakademíu Keilis í Reykjanesbæ þann 10. október undir yfirskriftinni Heilsuefling starfsmanna. Ráðstefnuna sækja 230 starfsmenn frá 13 leikskólum. Nú starfa níu heilsuleikskólar víðsvegar á landinu og eru fimm leikskólar að aðlaga námskrá sína að viðmiðum heilsuleikskóla þannig að innan tíðar verða þeir 13 talsins.

Markmið heilsuleikskóla er að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik og starfi. Markmið heilsustefnunnar er að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar. Í heilsuleikskóla er lögð áhersla á að börn alist upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu. Áhersluþættir heilsuleikskóla geta verið mismunandi eftir leikskólum en góð næring, góð hreyfing og listsköpun skal ávallt vera aðalsmerki þeirra.

Í viðmiðum heilsuleikskóla tilheyra börn, foreldrar, allt starfsfólk skólans og aðrir aðstandendur heilsuleikskólasamfélaginu.  Kennarar eru fyrirmynd barnanna og þurfa því að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og jákvætt viðhorf gagnvart heilsu, því það eykur vellíðan þeirra í starfi. Kennarar þurfa að vera jákvæðir gagnvart heildarsýn heilsustefnunnar og hvetja til og upplýsa um mikilvægi þess að temja sér heilbrigðan lífsstíl. Með ofangreind markmið að leiðarljósi var ráðstefnan skipulögð. Verður m.a. boðið upp á slökun og streitustjórnun, hópefli og fræðslu um hreyfingu og mataræði til handa starfsmönnum. Auk þess verða fyrirlestrar um hreyfiþroska barna fyrir kennara og hollan krakkamat fyrir matráða.

Það er Íþróttaakademía Keilis ásamt stjórn Samtaka Heilsuleikskóla sem skipuleggur ráðstefnuna sem verður öll hin glæsilegasta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024