Heilsa Suðurnesjamanna verri og ungmenni hreyfa sig of lítið
„Við þurfum að fá miklu fleiri nemendur í grunnskólum Reykjanesbæjar til að til að taka þátt í einhverri hreyfingu eða íþróttum að minnsta kosti þrisvar í viku. Það eru nokkrir skólar aðeins með hreyfingu aðeins þrisvar í viku,“ sagði Anna Sigríður Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í síðustu viku.
Anna segir að í könnunum hafi nemendur sem hreyfa sig fjórum sinnum eða oftar komið mjög vel út og skorað hærra en nemendur annars staðar á landinu. Hins vegar séu of mörg börn sem hreyfi sig ekki neitt eða alltof lítið og taki ekki þátt í neinum íþróttum. „Það hafa einhverjir skólar bætt við hreyfingu og það er gott. Svo þarf líka að auka upplýsingaflæði og auglýsa æfingar einnig á ensku og pólsku,“ sagði Anna Sigríður.
Ástæða fyrir innleggi Sigríðar voru orð forseta bæjarstjórnar um lýðheilsu. Jóhann F. Friðriksson, oddviti Framsóknarflokks greindi frá því að lýðheilsuráð hafi verið sett á laggirnar í Reykjanesbæ, fyrst sveitarfélaga hér landi og lýðheilsufræðingur tekið til starfa. „Ástæðan er m.a. sú að heilsa okkar er verri en annars staðar á landinu,“ sagði Jóhann.