Heildarmagn makríls á Íslandsmiðum meira en nokkru sinni
Bráðbirgðaniðurstöður sýna mun meira magn og suðlægari útbreiðslu makríls sunnan við Ísland en undanfarin ár. Þá var makríll fyrir öllu Vestur- og Austurlandi í svipuðu magni og fyrri ár, en lítils var vart norður af landinu. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum er heildarmagn makríls á Íslandsmiðum meira en nokkru sinni frá því að athuganirnar hófust árið 2009, segir í frétt frá Hafrannsóknarstofnun.
Í gær lauk rúmlega fimm vikna löngum leiðangri Árna Friðrikssonar sem hafði það megin markmið að meta magn og útbreiðslu makríls umhverfis Ísland og við Grænland. Verkefnið er hluti af sameiginlegum rannsóknum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga á dreifingu og magni helstu uppsjávartegunda í Norðaustur-Atlantshafi ásamt athugunum á magni átu og umhverfisþáttum á svæðinu. Þetta var sjöunda sumarið sem þessi leiðangur er farinn og í þriðja sinn sem Árni Friðriksson er fenginn til að rannsaka grænlenska hafsvæðið í þessum tilgangi, en 12 dögum var varið í rannsóknir þar.
Vart hefur verið við talsvert af makríl við ströndina út frá Reykjanesi síðustu daga, m.a. út frá Garði og Leiru. Þó hefur verið áberandi minna af honum svona nálægt landi í sumar. Frysting er í gangi á nokkrum stöðum, m.a. í Saltveri í Njarðvík.