Heildarkostnaður Reykjanesbæjar vegna barnaverndarmála var krónur 26.396.000
Það voru 22 mál sem voru lögð fyrir barnaverndarnefnd árið 2004 en málin voru í heild 213. Nefndin heyrir undir barnaverndar- og ráðgjafaþjónustu Fjölskyldu og félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ. Flest barnaverndarmál sem upp koma eru unnin í góðri samvinnu við foreldra og börn. Mál eru ekki lögð fyrir barnaverndarnefnd nema ekki náist samvinna við foreldra og/eða börn um vinnslu eða ef um verulega viðamikil mál er að ræða.
Helstu ástæður fyrir afskiptum starfsmanna barnaverndarnefndar voru vegna vanrækslu eða vangetu foreldra og unglingamála að því er kemur fram í ársskýrslu Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar fyrir árið 2004 og sést á meðfylgjandi mynd.
Í barnavernd er það meðal annars stefna Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar að hvetja foreldra til að leita tímanlega aðstoðar vegna barna sinna ef þau eru í vanda. Mikil áhersla er lögð á að finna sameiginlegar lausnir og leiðir. Meðferðaráætlanir eru gerðar í öllum málum. Öll mál sem unnin eru samkvæmt barnaverndarlögum eru skráð sem slík og það kynnt fyrir foreldrum. Áhersla er lögð á markvisst og gott samstarf við helstu samstarfsaðila, svo sem skóla, lögreglu, forvarnarfulltrúa, sérfræðinga fræðsluskrifstofu, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Hæfingarstöð o.fl.
Við barnavernd og ráðgjöf starfa þrír félagsráðgjafar í jafn mörgum stöðugildum. Tveir starfsmenn í einu stöðugildi störfuðu á árinu 2004 við tilsjón í barnaverndarmálum. Sálfræðingur Fjölskyldu- og félagsþjónustunnar vinnur einnig að barnaverndarmálum.
Úrræði í barnaverndarmálum eru ætíð í þróun og starfsmenn leggja mikinn metnað í að leita árangursríkra stuðningsúrræða.