Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Heilbrigðisráðherra útilokar ekki frekari nýtingu á skurðstofum HSS
Miðvikudagur 1. júlí 2009 kl. 10:42

Heilbrigðisráðherra útilokar ekki frekari nýtingu á skurðstofum HSS

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ragnar Örn Pétursson formaður Starfsmannafélags Suðurnesja og Árni Stefán Jónsson starfandi formaður BSRB áttu í gær fund með Ögmundi Jónassyni heilbrigðisráðherra. Fundinn sat einnig Sveinn Magnússon yfirlæknir í ráðuneytinu.

Ragnar Örn sagði í samtali við Víkurfréttir að fundurinn með ráðherra hefði verið mjög gagnlegur. „Ég greindi honum frá því að félagsmenn innan BSRB sem störfuðu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja væru mjög áhyggjufullir, m.a. vegna þess að framundan væri mikill niðurskurður í heilbrigðismálum sem örugglega  myndi bitna á rekstri HSS.  Því vekti það furðu og jafnvel gremju að ráðherra tæki illa í hugmyndir um aukna starfsemi og nýtingu skurðstofa og auknar tekjur fyrir stofnunina. Að hafa skurðstofur opnar allt árið kemur til góða fyrir allt svæðið og ekki síst fæðingardeildina og styrkir rekstur HSS.

Ráðherra upplýsti okkur um að hann væri ekki að setja stólinn fyrir dyrnar um aukna nýtingu á skurðstofunum  HSS, heldur  hefði hann fyrir nokkru óskað eftir því við framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnana á suðvestur horni landsins að skoða verkskipan sjúkrahúsanna og hugmyndir um hagræðingu og möguleika á tekjuaukningu og skila niðurstöðum fyrir 15. ágúst. Hann upplýsti einnig að þessi dagsetning hefði ekkert með þetta mál á HSS að gera. Ráðherra sagðist ekki vilja loka neinum dyrum en hann vildi skoða málin með langtímahagsmuni stofnananna í huga. Ef það kemur fram í tillögum HSS til ráðuneytisins að auka tekjur  með betri nýtingu skurðstofanna þá myndi hann ekki standa í vegi fyrir því ef það þjónaði langtímahagsmunum HSS.

Ráðherra upplýsti okkur einnig um að fyrr í gær sat hann fund með heilbrigðisráðherrum Norðurlandanna og þar hefði hann rætt um þann möguleika að sjúklingar frá þessum löndum kæmu til Íslands í aðgerðir og í gær var skipuð fjögurra manna nefnd frá Íslandi og Noregi til að vinna frekar að þessu samstarfi,“ sagði Ragnar Örn.