Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Heilbrigðisráðherra fékk afhentar 10 þús. undirskriftir - fjölmenni á „heitum“ borgarafundi um HSS
Miðvikudagur 10. febrúar 2010 kl. 10:44

Heilbrigðisráðherra fékk afhentar 10 þús. undirskriftir - fjölmenni á „heitum“ borgarafundi um HSS

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um fjögur hundruð sóttu borgarafund um málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja í gær. Sr. Skúli Ólafsson, sóknarprestur í Keflavík afhenti Álfheiði Ingadóttur, heilbrigðisráðherra undirskriftalista með nöfnum 9897 íbúa sem mótmæla niðurskurði í rekstri HSS.

Nokkur hiti var á fundinum og eftir ræður frummælenda, þar á meðal heilbrigðisráðherra svaraði Álfheiður Ingadóttir fjölmörgum spurningum úr sal. Varðist hún fimlega þó svo að fundarmenn væru ekki alltaf ánægðir með svör hennar. Einu sinni var púað á hana og oft komu óánægjuframmíköll. Ellert Eiríkssonar, fyrrverandi bæjarstjóri í Keflavík stóð stundum í ströngu sem fundarstjóri til að hafa hemil á fundargestum.


Í svörum ráðherra vísaði hún í kreppuástand og beindi líka nokkur atriðum til stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Hún spurði meðal annars hvers vegna eingöngu væru 6-7 heilsugæslulæknar þegar greitt væri fyrir sautján. Hún sagði að áberandi væri í rekstri HSS viðvarandi læknaskortur vegna launastrúktúrs og að HSS hafi ekki tekist að taka á þeim þætti né hallarekstri þó svo að leiðrétting hafi komið frá ríkinu. Hún kvatti HSS til að skoða betur ákvörðun um að loka skurðstofum og segja upp nærri 8 starfsígildum og benti á samstarfssamning sem sjúkrahúsið á Selfossi hefði gert í því sambandi. Þá sagði hún að engar uppsagnir yrðu á sjúkrahúsinu á Akranesi þó svo stofnunin þar yrði að skera niður eins og allar stofnanir.

Ráðherra sagði að of mikil áhersla hefði verið lögð á sjúkrahúsþáttinn í rekstrinum á kostnað heilsugæslunnar. Það þyrfti að laga.

Fram kom hjá nokkrum fyrirspyrjendum í sal að fáránlegt væri að bíða þyrfti í margar vikur eftir tíma hjá lækni eða margar klukkustundir eftir tíma á bráðavakt.

Ítarlegri fréttir frá fundinum í Víkurfréttum á morgun og einnig síðar í dag á vf.is, meðal annars videoviðtal við ráðherra eftir fundinn í gær.

Heilbrigðisráðherra fékk afhentar tæplega 10 þúsund mótmæli frá íbúum á Suðurnesjum frá Skúla Ólafssyni, sóknarpresti. Hér sést hún í pontu og að neðan er Konráð Lúðvíksson, yfirlæknir á HSS að spyrja ráðherra. VF-myndir/hilmar bragi.