Heilbrigðisráðherra dragi til baka fyrirhugðan niðurskurð á HSS
Eftirfarandi ályktun var samþykkt á stjórnarfundi í Starfsmannafélagi Suðurnesja í gær.
Stjórn STFS skorar á heilbrigðisráðherra að draga til baka fyrirhugaðan niðurskurð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Staðreyndin er sú að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er einn af hornsteinum fyrir góðum búsetuskilyrðum á Suðurnesjum, en mjög hefur verið þrengt að henni undanfarin ár t.d. með lokun heilsugæslusela í Garði, Sandgerði og Vogum og ekki síst lokun skurðstofu í vor og þar með lamaðri fæðingardeild. Þetta hefur þýtt um 9% fækkun starfsmanna.
Ef hugmyndir heilbrigðisráðherra um 400 m.kr. niðurskurð ganga eftir þýðir það að sjúkrahúsþjónusta mun að mestu leyti leggjast af og í framhaldi verða uppsagnir á hátt í 80 starfsmönnum fyrst og fremst konur, og er það ekki viðunandi á svæði þar sem mesta atvinnuleysi er fyrir á landinu.
Síðustu tveir heilbrigðisráðherrar hafa ekki viljað ljá máls á því að fá betri nýtingu á skurðstofum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja m.a. með útleigu. Núverandi heilbrigðisráðherra mun vera jákvæðari til þeirra mála og hefur framkvæmdastjórn HSS fullan vilja til að standa að slíku verkefni.
Stjórn STFS fagnar því að nú hyllir undir að framkvæmdir við gamla sjúkrahúsið að Ásbrú hefjist innan skamms og að fyrstu meðferðir geti hafist þar næsta sumar.
Á sjúkrahúsinu verður útlendingum boðið upp á sérhæfðar meðferðir og að sögn forsvarsmanna þess má búast við því að þar skapist hátt í þrjú hundruð störf, flest úr heilbrigðisgeiranum.
Lítur STFS á þessa starfssemi fyrst og fremst sem viðbót á störfum fyrir heilbrigðisstarfsmenn á Suðurnesjum og þá er vildu starfa hér.
Þarna er tendraður vonarneisti fyrir þá fjölmörgu starfsmenn heilbrigðisstofnana sem því miður mega búast við fjöldauppsögnum gangi hugmyndir ríkisstjórnarinnar eftir.