Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 11. febrúar 1999 kl. 23:36

HEILBRIGÐISEFTIRLITIÐ BANNAÐI HEITAN MAT

Það er mjög alvarlegt ef það er illskást að brjóta lög. Ég skil ekki af hverju ekki er hægt að leysa þetta mál á einfaldan hátt“, sagði Ólafur Thordersen, bæjarfulltrúi (J) á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í síðustu viku um málefni framreiðslu matar í skólagæslu í Njarðvík. „Það er rétt að skýrslan er svört“, sagði Ellert Eiríksson, bæjarstjóri um þetta mál. Ólafur hafði farið fram á skriflegar skýringar á bæjarstjórnarfundi 6. jan. sl. þar sem hann spyr út í málefni skólagæslunnar, t.d. hver hafi gefið leyfi fyrir því að veita heitar máltíðir og væri þá ábyrgur fyrir rekstrinum. Hann spurði einnig hvort Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi stöðvað matreiðslu á heitum máltíðum og hvort unnið væri að úrbótum á húsnæði skólagæslunnar sem er að Þórustíg 1 í Njarðvík. Í svari bæjarstjóra kemur fram að sl. haust hafi legið fyrir að ekki var heimilt að matreiða heitan mat í skólagæslu Njarðvíkurskóla. Ljóst hafi verið að ekki hafi svarað kostnaði við að leggja út í breytingar eða endurbætur á núverandi húsnæði þar sem þetta á að vera síðasta starfsár skólagæslunnar í þessu húsi. Fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja fór í eftirlitsferð á staðinn 11. jan. og eftir hana var þess krafist að hætt yrði að elda mat í skólagæslunni. Niðurstaðan var sú að heimilt væri að reiða fram tilbúinn mat, s.s. niðursoðna grauta, mjólkurvörur, mjólkurkorn, ávexti sem og smurt brauð með áleggi. Farið var fram á að uppvask færi yfir í Njarðvíkurskóla en það var ekki gert heldur notaður einnota borðbúnaður. Bæjarstjóri sagði ennfremur í svari sínu að ekki stæði til að hefja úrbætur á húsnæðinu, þar sem rífa á húsið í sumar vegna nýbyggingar við Njarðvíkurskóla. Jafnframt væri unnið að því að öll börn í Reykjanesbæ njóti sömu þjónustu en það mun gerast í síðasta lagi 1. sept. árið 2000.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024