„Heilbrigð sál í hraustum líkama“
Stóru-Vogaskóli í Vogum á Vatnsleysuströnd tekur nú þátt í Comeniusar verkefni í fjórða sinn og er yfirskrift verkefnisins “A Healthy Mind in a Healthy Body” (Heilbrigð sál í hraustum líkama).
Comeniusar verkefni eru evrópsk samstarfsverkefni sem stuðla að auknum samskiptum og samvinnu milli evrópskra skóla og eru studd af Evrópusambandinu. Samstarfsaðilar í verkefninu eru skólar frá Hollandi, Skotlandi, Slóveníu, Tékklandi, Spáni og Ítalíu en nemendur úr skólunum taka virkan þátt í verkefninu sem er fjölbreytt og skemmtilegt. Áhersla er lögð á heilbrigt líferni, aukna hreyfingu og hollt mataræði. Í verkefninu er unnið út frá fjölbreytileika og ólíkum venjum í hverju landi þótt megin markmiðið sé að stuðla almennt að bættri heilsu, jafnrétti og sjálfbærni.
Nemendur bera saman ýmsa þætti og kynna fyrir öðrum þátttakendum; svefn- og matarvenjum, mismunandi íþróttir og leiki, heilbrigt mataræði og endurvinnslu eru meðal verkefna en hefðir landanna í þessum efnum eru um margt ólíkar.
Á Vorsýningu Stóru-Vogaskóla sem haldin verður á Uppstigningardag 9. maí 2013 verður verkefnið kynnt með myndum og glærum sem nemendur skólans hafa unnið.