Heiða til Indlands í stofnfrumumeðferð
„Við förum með vonina og viljann að vopni í von um að meðferðin skili einhverjum bata og bættu lífi fyrir elsku Heiðu mína. Í raun vitum við ekkert hvort þetta skili einhverju en reynsla annarra sem hafa farið og reynsla fólks sem við þekkjum hefur skilað árangri til hins betra og bætta heilsu,“ segir Snorri Hreiðarsson, eiginmaður Bjarnheiðar Hannesdóttur (Heiðu) á styrktarsíðu hennar.
Eins og Víkurfréttir hafa áður greint frá fékk Heiða hjartastopp árið 2012 sem olli miklum heilaskaða. Heiða algjörlega ósjálfbjarga í dag og hefur viljað segja sögu sína sem víti til varnaðar fyrir aðra.
Heiða og Snorri lögðu af stað til Indlands í dag þar sem vonir eru bundnar við stofnfrumuaðgerð. Þar munu þau dvelja í átta vikur, með viðkomu í Damnörku og Dubai. Meðferðarstofnunin heitir Nu Tech Mediworld og mun Heiða vera í stífri sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun og sprautumeðferð þar sem stofnfrumum úr fósturvísum er sprautað í stoðkerfi og mænu í von um að frumurnar finni sér verkefni til að laga og bæta.
„Heiða hefur stefnt að þessu í um tvö ár og kraftur hennar og vilji til að reyna allt sem hún getur til að öðlast betra líf hefur komið henni hingað,“ segir Snorri og vill einnig koma á framfæri þakklæti til allra sem veitt hafa þeim styrk, stuðning ást og hlýju.„ Við erum orðlaus yfir allri þeirri góðmennsku sem fólk hefur sýnt okkur og okkur skortir orð yfir það. Við erum svo þakklát fyrir ykkur sem gefið hafa okkur von. Það er gott að hafa von. Vonin er eitt það sterkasta sem við eigum og við verðum að halda í hana.“