Heiða Björg vígð til djákna við athöfn í Skálholti
Heiða Björg Gústafsdóttir var í gær vígð til djákna. Hún mun þjónusta Keflavíkursöfnuð. Verkefni Heiðu Bjargar í söfnuðinum verða af ýmsum toga. Athöfnin fór fram í Skálholti en það var var vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, sem vígði djáknakandídatinn Heiðu Björgu. Hún er fyrsti djákninn við Keflavíkursókn og jafnframt 63. djákninn sem vígður er til þjónustu í Þjóðkirkjunni.
Sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi, lýsti vígslu, en vígsluvottar voru auk hans, sr. Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur í Keflavík, sr. Fritz Már Jörgensson, prestur í Keflavíkursókn, Jóhanna María Eyjólfsdóttir, djákni Laugardalsprestakalli og Elísabet Gísladóttir, djákni í Sóltúni.
Heiða Björg er fædd 1978 og hóf störf í Keflavíkurkirkju 1. ágúst sl. Hún er menntaður hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði. Um tíma starfaði hún á bráðadeild sem hjúkrunarfræðingur. Djáknanámi lauk hún 2020 og starfsþjálfun í Keflavíkurkirkju sl. vor. Eiginmaður hennar er Garðar K. Vilhjálmsson og eru þau búsett í Reykjanesbæ.
Við vígsluathöfnina lék Jón Bjarnason á orgelið og Skálholtskórinn söng.
Frá vígslunni í Skálholti: Í fremri röð frá vinstri: sr. Kristján Björnsson vígslubiskup og Heiða Björg Gústafsdóttir djákni. Efri röð frá vinstri: sr. Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur í Keflavík, Sr. Fritz Már Jörgensson prestur í Keflavíkursókn, sr. Hans Guðberg Alfreðsson prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi, Jóhanna María Eyjólfsdóttir, djákni Laugardalsprestakalli og Elísabet Gísladóttir, djákni í Sóltúni. VF-myndir: Hilmar Bragi