Hegrar á tjörninni í Sandgerði
Í fjölskrúðugt fuglalíf tjarnarinnar í Sandgerði hafa bæst við tveir Gráhegrar sem hafa hafst þar við síðan í haust. Gráhegrar eru algengir flækingar hér á landi á haustin en lítið hefur sést til þeirra hér á Suðurnesjum. Sumir hafa hér vetrardvöl en þeir koma frá Evrópu, aðllega frá Norðurlöndunum, að sögn Gunnars Þórs Hallgrímssonar, fuglafræðings hjá Náttúrustofu Reykjaness.
Ekki er þó víst að þeir þrauki veturinn, líkt og þessir tveir hafa gert. Gunnar segir líklegt að þeir búi sig nú til brottfarar, líklega til baka á sínar heimaslóðir þó lítið sé annars vitað um ferðir þeirra fugla sem hingað koma. Þó megi telja víst að Gráhegrinn fari ekki vestur um haf að heimsækja náfrænda sinn Bláhegrann.
Starfsfólk Náttúrustofunnar rekst oft á ýmsar tegundir sem ekki hafa „lögheimili” á Íslandi. Í haust sáust t.d. tveir Flatnefir á flækingi við Sandgerði. Í vetur hvarf svo annar þeirra og hinn nokkru síðar. Ekki er vitað hvað varð um þá en Gunnar telur líklegt að þeir hafi ekki þolað íslenskan vetur. Um unga fugla var að ræða.
Sem sagt, fuglaáhugafólk ætti að bregða sér að tjörninni í Sandgerði með góðan sjónauka. Hegrarnir eru styggir, gáfu ljósmyndara VF ekki færi á sér og flugu í burtu þegar hann reyndi að komast nær þeim. Það útskýrir hvers vegna meðfylgjandi mynd er svona óskýr.