Hefjast rannsóknarboranir í Eldvörpum í júní?
Náttúruverndarsinnar óttast að náttúruperlur á Reykjanesskaganum verði virkjunum að bráð
Stefnt er að því að hefja rannsóknarboranir í Eldvörpum á Reykjanesskaga í júní næstkomandi. Rammaáætlun var samþykkt á Alþingi á mánudag, en svæðið í Eldvörpum var þar sett í nýtingarflokk.
Í gær var lögð fram tillaga um umhverfismatsáætlun vegna rannsóknarboranna í Eldvörpum. Áætlanir gera ráð fyrir að álit skipulagsstofnunnar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir í maí og því geti framkvæmdir hafist í júní. Þessar rannsóknarboranir munu taka 18 mánuði.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands er ekki viss um að leyfi fáist til að virkja í Eldvörpum og bendir á að oft þurfi að gera miklar rannsóknir áður en leyfi er veitt.
„Eldvörp er tilkynnt til mats á umhverfisáhrifum á tilraunaborunum og það á eftir að koma í ljós hvort að það fer í gegn. Ég er ekki viss um það og mér sýnist að almenningur í Reykjavík hafi mikinn áhuga á þessari náttúru sem er á Reykjanesskaganum. Kannski kemur í ljós með Eldvörp að það sé ekki þess virði að eyðileggja þetta svæði,“ segir Árni í samtali við RÚV.
Ellert Grétarsson, stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, hefur miklar áhyggjur af því að helstu náttúruperlur Reykjanesskagans séu að verða virkjunum að bráð. „Þetta blasir við, eyðilegging á mestu náttúruperlum Reykjanesskagans. Það var bara gefið veiðileyfi á allt svæðið. Það voru þrjú svæði af 19 sem fóru í verndarflokk í rammaáætlun. Ég vil meina það að Reykjanesskaginn hafi verið notaður til að friða verksmiðjukrata og virkjanasinna í þessari vinnu við rammaáætlun, þá sem sjálfir tóku fyrstu skóflustunguna við álver í Helguvík,“ segir Ellert við Smugan.is.
Hér að neðan má sjá stutta heimildarmynd Ellerts um Eldvörp.