Hefja framkvæmdir við nýjan leikskóla á Ásbrú
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að hefja framkvæmdir við leikskólann að Skógarbraut 932 á Ásbrú í Reykjanesbæ. Ósk um fjárveitingu til leikskólans var tekin fyrir á síðasta fundi bæjarráðs. Þar mættu þau Þórey I. Guðmundsdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs, á fundinn og gerðu grein fyrir málinu.
Fasteignafélögin Heimavellir og Ásbrú íbúðir færðu Reykjanesbæ húsnæðið að Skógarbraut 932 að gjöf undir nýjan leikskóla að Ásbrú. Húsnæðið hentar vel til leikskólastarfs en þar var áður samkomuhús á gamla varnarliðssvæðinu.
Gríðarleg uppbygging hefur verið á Ásbrú síðustu ár og hefur íbúðum á svæðinu fjölgað verulega. Íbúafjöldi telur nú um 2.700 manns og er stór hluti þeirra fjölskyldufólk. Einn grunnskóli er á svæðinu, Háaleitisskóli, en um 250 nemendur eru skráðir í skólann nú í upphafi vetrar.