Hef ég nægan tíma til að hugsa um framtíðina ef allt fer á versta veg?
„Það er eins og allir séu Grindvíkingar í dag,“ segir Gunnar Tómasson, forstjóri útgerðarfyrirtækisins Þorbjarnar.
„Ég hugsa ekki þannig, það eina sem við getum gert er að hugsa um næstu daga og vikur og láta hlutina ganga upp, ef staðan breytist til hins verra, tökum við á því,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins Þorbjarnar í Grindavík en hann vill ekki hugsa til þess að Grindavík leggist í eyði.
Vinnan í dag hjá Þorbirni gengur út á að ná þeim verðmætum sem eru í geymslu í Grindavík en vel hefur gengið að skipuleggja næstu daga og vikur. „Til skamms tíma lít ég þannig á að við kappkostum að koma öllum vörum fyrirtækisins í öruggt skjól og flytja þær út til okkar viðskiptavina. Sumt er frosið og tilbúið, annað er í salti og geymist því vel en á eftir að fullvinna. Við erum að vinna í að geta komið því í aðrar vinnslur til að fullklára og í sölu fyrir jólin. Þetta hefur ekki áhrif á frystitogarana, þeir fullvinna fiskinn um borð og hann fer beint út, löndunin mun bara ekki fara fram í Grindavík heldur annars staðar. Ísfiskskipin geta auðvitað haldið veiðum áfram, sumt af aflanum fer beint á markað en við erum í samskiptum við önnur fyrirtæki upp á að geta unnið hluta aflans hjá þeim til að uppfylla samninga við okkar viðskiptavini. Það er til skoðunar að okkar starfsfólk geti unnið á viðkomandi stað, það er allt til skoðunar. Við munum opna skrifstofu í húsakynnum Deloitte í Kópavogi í dag, húsnæði sem þeir eru nýfluttir í, sumt starfsfólk mun geta unnið heiman frá sér svo okkur gengur mjög vel að láta hlutina næstu daga ganga upp.“
Gunnar segir að þegar skjálftahrinan hófst fyrir nokkrum vikum, var strax hafist handa við undirbúning ef til þess kæmi að ekki yrði íbúðarhæft í Grindavík ef hitaveitan myndi hætta starfsemi. „Það gekk mjög vel að rýma verbúðirnar, allir starfsmenn voru undirbúnir og komu sér strax í öruggt skjól en svo þurfum við að finna sumum betra húsnæði, sú vinna stendur yfir. Varðandi framtíðina þá hef ég nægan tíma til að hugsa um hana ef allt fer á versta veg. Nú er ég bara að hugsa um hvernig við brúum bilið þangað til við komumst heim aftur. Svona er staðan núna, við vinnum með hana og ef hún breytist, tökum við á því. Það hefur verið frábært að finna samhuginn sem við finnum hvaðanæva af, ekki bara hér á Íslandi heldur hafa erlendir viðskiptavinir okkar líka boðið fram þá aðstoð sem þeir geta veitt. Mér finnst stjórnvöld hafa staðið sig frábærlega í þessari stöðu, það er eins og allir séu Grindvíkingar í dag,“ sagði Gunnar að lokum.