„Hef aldrei verið jafn hamingjusamur“
Fjölskyldumaðurinn Eyþór Árni keppir aftur í Biggest Loser.
„Þetta leggst vel í mig og læddist dálítið að mér því ég hafði ekki fylgst nógu vel með og nú er bara komið að frumsýningu,“ segir Eyþór Árni Úlfarsson, sem tekur þátt í keppninni um Biggest Loser í annað sinn, en þáttaröðin verður frumsýnd á Skjá einum í kvöld.
Ákvað að láta vaða
Tökur hófust á þáttunum í september síðastliðnum og mikið starf er að baki. En var ekkert mál að komast inn í annað sinn? „Ég var búinn að velta fyrir mér hvort ég ætti að sækja um aftur og vinir mínir höfðu verið að hnippa í mig með að láta á það reyna. Það er aldrei öruggt að komast inn þó maður sæki um. Ég ákvað að láta vaða. Svo var ég látinn vita að ég væri kominn í eitthvað úrtak og svo var ég kominn inn,“ Eyþór Árni.
Átti síðast kærustu 1999
Spurður um hvort það hjálpi ekki til að hafa farið í gegnum þetta áður, segir Eyþór Árni vissulega vita nokkurn veginn hvað hann var að fara út í. Áherslur og markmið hafi bara breyst í lífinu hjá honum. Einbeitingin sé meira komin á fjölskyldulífið. „Allt í einu tók líf mitt u-beygju og ég var orðinn fjölskyldumaður. Ég átti einu sinni kærustu í stuttan tíma 1999 og svo fimmtán árum seinna kynnist ég konu og er orðinn kærasti, unnusti, sambýlismaður og stjúppabbi. Þessi hlutverk eru öðruvísi en ég hafði áður en ég hef aldrei verið jafn hamingjusamur,“ segir Eyþór Árni.
Verður geysilega spennandi
Keppendur eru 16 að þessu sinni, voru 12 í fyrra og kynjahlutfallið er jafnt. „Eins og áður er mikil dreifing og breidd í hópnum. Ég hef tekið eftir að í ár eru fleiri mjög stórir keppendur en í fyrra. Þetta verður held ég alveg geysilega spennandi. Það gengur mikið á í þessu. Ég held að það muni ganga meira á en í síðustu seríu, það er meira 'aksjón',“ segir Eyþór Árni spenntur.
Frá frumsýningu Biggest Loser í Andrews Theatre fyrra.