Hávaði frá skemmtistöðum: Bæjarstjórn fjallar fljótlega um nýjar reglur
„Bæjaryfirvöld eru vel meðvituð um þetta vandamál og verður allt gert til að sporna við þessu ónæði og er vinna í fullum gangi vegna þessa,“ segir Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari í Reykjanesbæ þegar VF leitaði viðbragða vegna þeirrar ónægju sem íbúar í nágrenni við skemmtistaðinn Yello hafa látíð í ljós. Þeir segja mikið ónæði af staðnum og lögðu nýlega lfram undirskriftalista þar sem þeir krefjast úrbóta.
Íbúar í nágrenninu spyrja að því hver munurinn sé á hávaða frá Glóðinni og hávaða frá Yello, en Glóðinni var nýlega synjað um leyfi til skemmtistaðareksturs. Þar höfðu íbúar í nágrenninu einnig kvartað yfir miklu ónæði.
Hjörtur segir rétt að fram komi að bæjaryfirvöld eru umsagnaraðili en ekki leyfisvieitandi. Það sé höndum sýslumanns að veita leyfið og meta hvort tillit sé tekið til umsagnar eftirlitsaðila eður ei.
„Yello hefur leyfi í dag og þess vegna hafa bæjaryfirvöld ekki verið að veita umsögn um áframhaldandi rekstur en Glóðin var að sækja um nýtt leyfi og þess vegna kom umsögn frá bæjaryfirvöldum,“ segir Hjörtur í svari sínu.
„Varðandi Glóðina var umsögn bæjarráðs neikvæð varðandi skemmtistaðinn en jákvæð að þarna væri rekinn veitingastaður með takmörkunum um opnunartíma. Að íbúarnir hafi kvartað ítrekað í tvö ár veit ég ekki um. Það hafa tveir aðilar kvartað í mig nú nýlega fyrir utan undirskriftalistann“ segir Hjörtur.
„Það er rétt að undirskriftalisti var lagður fram og vísað í að verið væri að vinna nýjar reglur m.a. vegna ónæðis. Með þessum reglum ætti að vera auðveldara að taka á þessum málum. Reglurnar eru til yfirlestrar og verða lagðar mjög fljótlega fyrir bæjarstjórn,“ segir Hjörtur ennfremur.
Í samtali við VF vísaði einn íbúana, Sævar Þorkell Jensson, í 20. grein lögreglusamþykktar Reykjanesbæjar (sjá aðra frétt um málið hér á vf.is). Sævar spyr hvers vegna verið sé að setja lögreglusamþykkt ef það eigi ekki að fara eftir henni.
Hjörtur segir skipulagið fyrir þennan hluta bæjarins gera ráð fyrir að þarna sé atvinnustarfssemi s.s rekstur skemmtistaða. Sú grein sem þarna sé vitnað í eigi því ekki við.
„Lögreglunni ber að framfylgja lögreglusamþykktinni og til að auðvelda henni framgöngu í þessum málum þá var ákveðið að endurskoða hana og gera hana skilvirkari,“ segir Hjötur í svari sínu.
---
Tengd frétt:
Hver munurinn á hávaða frá Yello og Glóðinni?