Haugar af rusli í jaðri Reykjanesfólkvangs
Starfsmaður Umhverfisstofnunar var ekki sáttur þegar hann lagði leið sína út á Reykjanesfólkvang í vikunni. Mikið rusl og drasl, svo langt sem augað eygði, lá þar fyrir utan gamlan vegslóða. Ferðamenn höfðu stoppað þar á bíl sínum og virtist þeim mjög misboðið við þá sjón sem blasti við þeim. Visir.is fjallar um málið en nánar er fjallað um þetta á vef Umhverfisstofnunar.
Á vef Umhverfisstofnunar segir að með fjölgun ferðamanna á Íslandi almennt, fjölgar einnig þeim sem ferðast um Reykjanesfólkvang. Líklega eru ferðamennirnir tveir sem gengu fram á ruslahauginn nú í vikunni ekki þeir fyrstu sem lenda í slíku.
Umgengni innan Reykjanesfólkvangs hefur sums staðar verið mjög slæm um árabil. Lengi hefur þekkst að fólk losar sig við ýmis konar rusl innan fólkvangsins. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er þetta svæði í jaðri Reykjanesfólkvangs, mörg hundruð fermetrar, nýtt sem ruslahaugur og skotæfingasvæði. Meðal þess sem fyrir augu bar var sundurskotin þvottavél og frystikista, raftæki, timbur og einangrunarrör. Einnig var var fjölmargt sem til fellur við endurbætur á húsnæði eða í iðnaði, svo sem haugar af flísum, steypuúrgangur, vírar og plastslöngur. Tóm skothylki lágu eins og hráviði um svæðið allt og skiptu þúsundum.
Umhverfisstofnun hefur undanfarin sumur staðið að ruslhreinsun innan fólkvangsins ásamt sjálfboðaliðum stofnunarinnar. Sú vinna er bæði tíma- og mannaflsfrek og bagalegt að um leið og hreinsun á einu svæði lýkur, þurfi vart nema að snúa sér við og hefjast handa á ný.
Umgengni við landið, hvort sem það er friðlýst eður ei, er gríðarlega stórt hagsmunamál þjóðar sem treystir á ferðamennsku og ímynd hreinnar náttúru til að afla sér tekna og atvinnu.
Umfjöllun Umhverfisstofnunar um málið
Eins og sjá má á þessari mynd sem Umhverfisstofnun birti á heimasíðu sinni, liggja skothylki í þúsundatali út um allt á svæðinu.