Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 23. maí 2000 kl. 16:22

Hátíðleg skólaslit FS - Nýstúdent hlaut fjórtán verðlaun

Fjölbrautaskóla Suðurnesja var slitið við hátíðlega athöfn á sal skólans sl. laugardag. Sturlaugur Jón Björnsson, nýstúdent, lék á valdhorn við undirleik Ragnheiðar Skúladóttur, á meðan gestir voru að koma sér fyrir. Sigrid Österby, kennari, kynnti dagskrárliði og síðan flutti Kristján Ásmundsson, aðstoðarskólameistari, yfirlit yfir störf annarinnar. Í lokin voru nýstúdentum veitt verðlaun fyrir góðan námsárangur og hlaut Ásdís Jóhannesdóttir 14 verðlaun. Í ræðu Kristjáns kom fram að 680 nemendur hefðu stundað nám í dagskóla á önninni og um 170 í öldungadeild. Einn nemandi var í fjarnámi í netagerð, en hann er sá fyrsti sem lýkur slíku námi í fjarnámi. „Kæru útskriftarnemendur, mig langar að nota þetta tækifæri til að óska ykkur til hamingju með áfangann, það hefur verið gaman að kynnast og vera með ykkur. Ykkar er framtíðin, nýtið hvert tækifæri sem ykkur kann að gefast og látið drauma ykkar rætast. Að lokum vil ég þakka starfsfólki skólans samstarfið á önninni og óska ykkur öllum bjartrar framtíðar“, sagði Krisján í ávarpi sínu. Arnar Fells Gunnarsson, formaður nemendafélagsins, flutti ávarp og fór yfir félagslíf annarinnar. Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari, afhenti síðan prófskírteini og stúdentar gengu fylktu liði upp á svið og veittu langþráðum skírteinum viðtöku. Þegar allir höfðu fengið skírteini sín afhent, gaf Ólafur stúdentum merki um að setja upp hvítu kollana. Það voru stoltir stúdentar sem stóðu hnarreistir á sal skólans á því andartaki. Heimir Sverrisson, nýstúdent, lék á harmonikku og síðan sá Kristján Jóhannesson, sviðsstjóri verknámssviðs, um verðlaunaafhendingu. Fjölmargar viðukenningar voru veittar fyrir góðan námsárangur og hlaut Ásdís Jóhannesdóttir flest verðlaun, eða fjórtán viðurkenningar. Hún hlaut m.a. bókaverðlaun fyrir góðan árangur í íslensku, frönsku, dönsku, þýsku, ensku, raungreinum, stærðfræði og sögu og fyrir að vera með hæstu einkunn á stúdentsprófi. Ásdís þurfti sérstakan vagn undir verðlaunin því hún gat ómögulega haldið á öllu saman, og gera aðrir betur? Svava M. Sigurðardóttir hlaut sex viðurkenningar fyrir góðan námsárangur, fyrir íslensku, efnafræði, þýsku, stærðfræði, dönsku og viðskiptagreinar. Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri veitti að lokum viðurkenningar f.h. Sparisjóðsins fyrir góðan námsárangur, og þær hlutu Ásdís Jóhannesdóttir, Svava M. Sigurðardóttir og Jóhannes Antonsson. Þorvaldur Sigurðsson flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks og síðan flutti Óli Ásgeir Hermannsson, nýstúdent, ávarp f.h. brautskráðra. Nýstúdentar höfðu ekki lokið við að sýna hvað í þeim býr og léku lagið Song for my Father eftir Horris Silver. Djass kombóið skipuðu Helgi Már Hannesson á píanó, Svava Sigurðardóttir á tenórsaxafón, Sturlaugur Jón Björnsson tenórsaxafón, Þórólfur Þórsson bassa og Vilhelm Ólafsson á trommur. Þegar síðustu tónarnir fjöruðu út, sleit Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari, vorönn 2000.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024