Hátíð á Holti
Hátíðleg athöfn fór fram í dag þegar Leikskólinn Holt í Innri-Njarðvík hélt upp á 20 ára starfsafmæli. Við athöfnina var formlega opnuð ný 293 fermetra viðbygging við leikskólann, og er leikskólinn nú hátt í 600 fermetrar. Í viðbyggingunni eru tvær deildir fyrir yngri börnin, aðstaða fyrir starfsfólk og glæsilegur listaskáli. Leikskólinn getur nú annað betur eftirspurn í leikskólann og bættust við 46 börn eftir að viðbyggingin opnaði og eru nú 92 börn í heildina á leikskólanum.
Kristín Helgadóttir, leikskólastjóri á Holti, segir það vera frábært að fá listaskálann, þar sem börnin vinni mikið að sköpun. Í listaskálanum er starfandi starfsmaður sem vinnur með börnunum að skapandi list.
Krakkarnir á leikskólanum stálu senunni á afmælishátíðinni og fluttu tvö lög við góðar undirtektir viðstaddra. Þau kórónuðu svo daginn með að færa Kristínu mynd af merki leikskólans sem gerð er úr mósaík. Myndina unnu þau Kristján Þórarinn, Eiríkur Svan, Alma, Eydís Ósk og Ester ásamt Söru Dögg starfsmanni listaskálans. Myndin er gerð úr mósaík og sýnir glaðleg dansandi börn. Það er við hæfi að merki leikskólans skuli vera glaðleg dansandi börn því tónlist skipar mikinn sess í leikskólanum.
Systrafélagið í Njarðvík á stóran sess í sögu leikskólans. Þær eru frumkvöðlar að viðurvist skólans því þær byggðu hann upp og gerðu fokheldan árið 1978 og létu húsið í hendur bæjarins. Þær stöllur hafa ávallt stutt leikskólann með gjöfum og komu meðal annars færandi hendi í dag.
VF-Myndir: - Efsta: Krakkarnir syngja lög fyrir viðstadda. Miðja: Kristín, leikskólastjóri, tekur við mósaík listaverkinu frá krökkunum úr listaskálanum og Söru Dögg starfsmanni listaskálans. Neðsta: Þær Guðrún Ester Aðalsteinsdóttir, formaður systrafélagsins og Kristín Sveinsdóttir færa Kristínu gjöf.