Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Háskólaþorp á Keflavíkurflugvelli haustið 2008
Fimmtudagur 22. febrúar 2007 kl. 16:06

Háskólaþorp á Keflavíkurflugvelli haustið 2008

-ef allt gengur upp. Viðræður hafnar við Þróunarfélagið um kaup á húsnæði-

Unnið er að því að koma upp alþjóðlegu háskóla- og  þekkingarsamfélagi á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli með aðkomu Reykjanesbæjar og ýmsra aðila á sviði fjárfestinga og stórframkvæmda. Runólfur Ágústsson, fyrrum háskólarektor á Bifröst, er einn þeirra sem stendur að verkefninu.

„Mér líst mjög vel á þetta verkefni og tel að í þessu felist mörg tækifæri. Verkefnið núna er að greina þau og nýta,“ sagði Runólfur í samtali við VF en hann vann sem háskólarektor að þeirri uppbyggingu sem staðið hefur yfir síðastliðin ár á háskólaþorpinu Bifröst. Hann segir flöskuhálsinn þar aðallega hafa falist í uppbyggingu á aðstöðu.  Nú sé málum hins vegar öfugt farið þar sem öll aðstaða á Keflavíkurflugvelli sé þegar til staðar. Verkefnið sé því að koma henni í nýtingu.

„Menn sjá auðvitað ýmis tækifæri í nálægð þorpsins við alþjóðaflugvöllinn á Keflavíkurflugvelli, sem er samgöngumiðstöð Íslands. Við höfum fyrirmyndir t.d. frá Shannon á Írlandi þar sem starfsemi háskóla, tæknigarða og flugvallar var tvinnað saman með mjög góðum árgangi. Þetta eru hugmyndir sem við horfum til í þessu samhengi,“ segir Runólfur.

Runólfur segir að til framtíðar séu menn fyrst og fremst að horfa til alþjóðlegs háskólamarkaðar og þá í samstarfi við erlenda háskóla. Einnig verði lögð áhersla á meiri og virkari tengsl á milli atvinnulífs og skóla heldur en gert hefur verið áður hérlendis. Hugmyndin sé að stofna hlutafélag með aðkomu lykilfyrirtækja á þeim sviðum sem skólinn vilji starfa á.

Runólfur var inntur eftir því hvort ástandið á varnarliðsþorpinu væri þannig að lítið þyrfti til hægt væri að hefja starfsemi þar.
„Mín vinna hefur fyrst og fremst snúið að inntakinu og þróun þess. Sú vinna hefur gengið ákaflega vel í samstarfi við fjölmarga aðila. Hvað snertið húsnæðið þá eru hafnar formlegar viðræður við Þróunarfélagið um kaup á töluverðu húsnæði sem nauðsynlegt er undir þessa starfsemi, s.s. kennsluhúsnæði, samfélagslega aðstöðu og íbúðarhúsnæði og almennt má segja að ástandið á þessu húsnæði sé gott.
Það er búið að vinna í þessu síðan í desember sú vinna hefur gengið vel. Hins vegar er margt óunnið ennþá áður en hægt er að svara því hvort af þessu verður eða ekki,“ segir Runólfur.

Hann segir of snemmt að segja til um það hvenær háskólaþorpið verði komið í gang ef verkefnið gengur upp.  „Að koma á fót nýjum háskóla er mjög viðamikið verkefni, það liggur fyrir. Ef hins vegar allt gengur upp þá gera menn sér vonir um að þarna verði allt komið í fullan gang haustið 2008,“ segir Runólfur.

Myndir: Loftmynd af gamla varnarsvæðinu og Runólfur Ágústsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024