Háskólanám í tölvuleikjagerð í fyrsta sinn á Íslandi
Keilir býður upp á námsbraut í tölvuleikjagerð á háskólastigi í samstarfi við norska skólann Noroff - School of technology and digital media. Er þetta í fyrsta skiptið sem boðið er upp á sérhæft nám í leikjagerð á háskólastigi í samstarfi við íslenskan skóla. Um er að ræða BSc gráðu sem er tekin á þremur árum í fjarnámi hjá Noroff og með staðlotum hjá Keili.
Námið (Bachelor in Interactive Media - Games) leggur áherslu á hönnun og þróun leikja og undirbýr nemendur fyrir fjölbreytt störf leikjagerðarfólks, með það að markmiði að nemandinn öðlist faglegt forskot og fái innsýn í hlutverk leikjagerðar í afþreyingariðnaði og skapandi greinum.
Boðið upp á námið í nánu samstarfi við Keili
Noroff skólinn og Keilir undirrituðu á dögunum samstarfsyfirlýsingu þar sem kveðið er á um samstarf skólanna við markaðssetningu og utanumhald leikjagerðarnámsins á Íslandi. Samkvæmt samkomulagi skólanna mun Noroff opna útibú skólans í Keili. Þá verða skólagjöld íslensku nemendanna mun lægri en í Noregi eða sem nemur rúmum 100.000 kr. á önn, auk þess sem þeir hafa aðgang að íslenskum leiðbeinendum og sækja staðlotur í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Skortur er á sérhæfðu og menntuðu fólki í leikjagerð bæði hérlendis og erlendis, og eru störf í leikjaiðnaði bæði eftirsótt og vel launuð. Gífurlegar tækniframfarir hafa átt sér stað á undanförnum árum og er mikilvægt að menntakerfið þróist í takti við þær breytingar. Gerð tölvuleikja er þverfaglegt og skapandi viðfangsefni þar sem koma við sögu listsköpun, vöruhönnun, gagnagreining, gerð viðskiptalíkana, forritun og aðrar raungreinar.
Leiðandi skóli í tölvuleikjagerð
Noroff er norskur háskóli viðurkenndur af norska menntamálaráðuneytinu. Markmið skólans er að bjóða nemendum upp á hágæðanám sem nýtist þeim í starfi og færir þeim samkeppnishæf laun. Við skólann starfar einvalalið alþjóðlegra kennara sem býr yfir mikilli þekkingu og reynslu, og eru allar námsbrautir skólans þróaðar í nánu samstarfi við fyrirtæki í viðeigandi atvinnugreinum. Námið fer fram á ensku og er viðurkennt af Lánasjóði íslenskra námsmanna. Inntökuskilyrði er að umsækjendur hafi lokið framhaldsskólanámi (stúdentspróf eða sambærilegt frumgreinanám, verk- eða iðnnámi).
Samlegð með námsbraut í leikjagerð á framhaldsskólastigi
Keilir hefur á undanförnum árum unnið að nýrri námsbraut í gerð tölvuleikja, en samkvæmt leyfi frá menntamálaráðuneytinu stefnir Keilir á að bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi til stúdentsprófs fyrir nemendur á aldrinum 16 - 25 ára. Námið byggir á nánum tengslum við atvinnulífið, tölvuleikjaframleiðandans CCP og IGI - samtökum leikjagerðarfyrirtækja á Íslandi, sem veita faglega ráðgjöf við gæðastjórnun og framkvæmd námsins.
Á heimsvísu er velta leikjagerðariðnaðarins mun meir en kvikmyndaiðnaðarins. Á Íslandi eru tekjur af leikjaiðnaði nær eingöngu í formi útflutnings og hefur verið skortur á vel menntuðu innlendu starfsfólki við greinina. Markmið Keilis er að geta boðið upp á samfellt nám á framhaldsskóla- og háskólastigi í tölvuleikagerð í framtíðinni, sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki, ásamt áhuga ungs fólks á að afla sér slíkrar menntunar innan skapandi greina.