Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Háskólanám hafið hjá Keili
Föstudagur 5. september 2008 kl. 11:52

Háskólanám hafið hjá Keili




Fyrsta háskólanámið sem skipulagt er á vegum Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs hefst nú um helgina, en það er frumkvöðlanám í samvinnu skóla skapandi greina innan Keilis, verkfræðideildar Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.


Frumkvöðlanámið fer fram í nýuppgerðu 3.300 fermetra húsi, sem hefur hlotið nafnið Eldey, en húsið hýsti áður verkfræðideild bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Nítján nemendur hófu námið á fyrirlestri Jóhanns P. Malmquist, prófessors við verkfræðideild HÍ, sem hefur tekið þátt í mörgum frumkvöðlaverkefnum í gegnum tíðina.


Í Eldey munu að auki hafa aðsetur tveir aðrir skólar Keilis, orku- og tækniskóli og samgöngu- og öryggisskóli, auk þess sem þar verða kennd námskeið á vegum háskólabrúar Keilis. Einnig munu sprotafyrirtæki á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands leigja aðstöðu í húsinu, en allir þessir aðilar munu njóta þeirrar góðu aðstöðu sem er í húsinu, sem hefur að geyma fjölda fundarherbergja, mótttöku, gagnasmiðju og kaffirýmis, auk stórra málm- og tréverkstæða sem bandaríski herinn byggði á sínum tíma.


Ljósmynd: Magnús Árni í einni af kennslustofunum í Eldey. Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024