Harmar ákvörðun Landsbankans
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar harmar ákvörðun Landsbankans um lokun útibús bankans í Sandgerði. Á fundi bæjaryfirvalda með Steinþóri Pálssyni bankastjóra sl. föstudag var skorað á hann og bankaráð Landsbankans að endurskoða tafarlaust ákvörðun um lokun og falla frá þeim áætlunum.
Landsbankinn ætti að hafa burði til að starfrækja bankaútibú í rúmlega 1600 manna samfélagi og bjóða bæði íbúum og fyrirtækjum þjónustu í nærsamfélaginu. Þannig stæði banki í ríkiseigu undir samfélagslegum skyldum og ábyrgð.
Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar mun gera það sem í hennar valdi stendur til að reyna að tryggja Sandgerðingum bankaþjónustu í heimabyggð.