Harmar ákvörðun Kauphallarinnar
Atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar harmar ákvörðun Kauphallarinnar að beita höfnina févíti segir hana ekki til þess fallna að bæta fjárhagstöðu Reykjaneshafnar, sem er skuldum vafin.
Sem kunnugt er beitti Kauphöllin höfnina áminningu og févíti á dögunum þar sem láðst hafði að tilkynna með réttum hætti um vanskil á skuldabréfum sem þar eru skráð. Févítið hljóðaði upp á eina og hálfa milljón króna.
Atvinnu- og hafnaráð harmaði þessa ákvörðun Kauphallarinnar þegar ráðið kom saman á fundi í vikunni. Þá vill ráðið að „verklag framkvæmdastjóra hafnarinnar verði bætt og tilkynnt fyrirfram um væntanleg vanskil hverju sinni til Kauphallar og tryggt að ekki verði tilefni fyrir Kauphöll til frekari aðgerða í framtíðinni,“ segir í fundargerð.