Harma vinnubrögð meirihlutans
Fulltrúar G- og S- lista í fræðslu- og uppeldisnefnd Grindavíkur harma vinnubrögð meirihluta D og B-lista vegna sameiningar grunnskólanna þar í bæ. Þeir draga í efa hvort fyrirhugaðar breytingar með „tilheyrandi ólgu og óánægju séu metnar til fjár,“ eins og það er orðað í bókun minnihlutans sem lögð var fram á fundi nefndarinnar í gær. Þeir segja að hugsanlegur sparnaður hafi ekki legið fyrir fyrr en tveimur klukkustundum fyrir lokaákvörðun í málinu
Meirihluti B- og D-lista bar upp tillögu þess efns að Hópsskóli yrði lagður niður og starfsemi hans færð undir Grunnskóla Grindavíkur og þar með eins skólastjóra. Áður hafði verið tekist á um málið í bæjarstjórn og á fyrri fundi fræðslu- og uppeldisnefndar.
Í tillögu meirihlutans er gert ráð fyrir því að yngstu bekkjardeildunum hins sameinaða skóla verði áfram kennt í húsnæði Hópsskóla. Tillagan gerir ekki ráð fyrir breytingum á högum núverandi starfsfólks Hópsskóla öðrum en þeim að staða skólastjóra verði lögð niður.
„Skólastjóra og stjórnendum Grunnskóla Grindavíkur og Hópsskóla, í samráði við skólamálafulltrúa, verði falið að undirbúa breytinguna með þeim hætti að sem minnst röskun verði fyrir nemendur og starfsmenn og starfsemin geti hafist með eðlilegum hætti í haust. Skólamálafulltrúa í samráði við skólastjóra Grunnskóla Grindavíkur og fjármálastjóra, verði falið að ganga frá starfsmannamálum í samræmi við lög, kjarasamninga og ráðningarsamninga.
Fræðslu- og uppeldisnefnd Grindavíkur treystir því mjög svo hæfa starfsfólki beggja skóla til að láta sameininguna ganga sem best með hag nemenda og starfsfólks að leiðarljósi og tryggja samfellu í starfi skólanna,“ segir ennfremur í tillögunni sem var samþykkt með þremur atkvæðum meirihlutans gegn tveimur minnihlutans.
Minnihlutinn lagði fram svohljóðandi bókun:
„G og S-listi harma þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í jafn mikilvægu máli og sameining grunnskólanna er. Það er einlæg von okkar að í framtíðinni verði slíkum breytingum gefin sanngjarn tími þar sem allir hagsmunaaðilar eru hafðir með í ráðum frá upphafi. Þá má líka hafa í huga hvort fyrirhugaðar breytingar með tilheyrandi ólgu og óánægju séu metnar til fjár. Það er að okkar mati ótækt að hugsanlegur sparnaður vegna breytinganna hafi ekki legið fyrir fyrr en tveimru klst. fyrir lokaákvörðun málsins. Hann hefði að sjálfsögðu átt að liggja fyrir um leið og B og D-listi settu málið í stefnuskrá sína fyrir kosningar.
G og S-listi vilja að lokum þakka Maggý Hrönn[skólastjóra Hópsskóla-innsk.blm] fyrir vel unnin störf frá því í haust og óskum við henni velfarnaðar“.
Mynd - Hópsskóli var vígður síðastliðið haust og nýr skólastjóri ráðinn. Honum hefur verið sagt upp og rekstur skólans færður undir Grunnskóla Grindavíkur.