Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

 Harma óvissu um eignarhald í HS Orku
Fimmtudagur 5. ágúst 2010 kl. 09:14

Harma óvissu um eignarhald í HS Orku


Meirihluti B- og D -lista í bæjarráði Grindavíkur harmar þá óvissu sem nú ríkir um eignarhald HS Orku og fjármögnun framkvæmda á vegum fyrirtækisins. Sú óvissa stefni atvinnuuppbyggingu á svæðinu í hættu. Þetta kemur fram í ályktun meirihlutans frá fundi bæjarráðs í gær. Minnihluti G- og S-lista telur ekki tímabært að álykta um málið.


„Bæjarráð telur rétt að eftirfarandi sé haldið til haga. Þær orkuauðlindir sem HS Orka hefur til nýtingar á Suðurnesjum eru í eigu Grindavíkurbæjar og Reykjanesbæjar, en ekki HS Orku.  HS Orka greiðir sveitarfélögunum ákveðið auðlindagjald sem samfélagið nýtur góðs af. Grindavíkurbær er  reiðubúinn til viðræðna um styttingu leigutímans, verði það til þess að skapa sátt um málið,“ segir í ályktun meirihlutans.

Þar segir ennfremur:
„Við sölu á hlutum Geysis Green Energy í HS Orku til Magma Energy hefur verið fylgt leikreglum, skv. mati nefndar ríkisstjórnarinnar um erlenda fjárfestingu. Nefndin tók einnig afstöðu til málsins með sömu niðurstöðu við sölu á hlutum OR og Hafnarfjarðarkaupstaðar til Magma Energy. Nú hefur verið skipuð ný nefnd til að skoða sama mál. Hversu margar nefndir þarf til að skoða málið? Mjög brýnt er að ná niðurstöðu sem allra fyrst og eyða þar með allri óvissu.

Ríkisstjórnin hefur haft ýmis tækifæri undanfarin misseri til að grípa til þeirra ráðstafana sem hún telur nauðsynleg, en kosið að gera það ekki.  Það er ekki góð stjórnsýsla að breyta reglunum eftir á. Hætt er við því að þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar geri erlenda fjárfesta afhuga því að fjárfesta hér á landi til langrar framtíðar.
Það er ljóst að eigandi HS Orku þarf að hafa bolmagn til að halda áfram framkvæmdum við þau verkefni sem þegar hafa verið ákveðin.  Ljóst er að sú fjárfesting hleypur á tugum milljarða, sem liggja ekki á lausu hjá ríkissjóði. Atvinnuuppbygging á Suðurnesjum mun að miklu leyti byggjast á skynsamlegri nýtingu þeirrar orku sem er á svæðinu. HS Orka er mikilvægur hlekkur í því að virkja orkuna sem er á svæðinu til  atvinnuuppbyggingar.
Bæjarráð Grindavíkur leggur áherslu á að atvinnuuppbygging og verðmætasköpun eru leiðirnar út úr kreppunni. Hlutverk ríkisins ætti að vera að stuðla að frekari uppbyggingu, í stað þess að standa í vegi fyrir henni.  Atvinnuleysi á landinu er mest á Suðurnesjum, var í júní mánuði 11,9% samanborið við 7,6% á landinu öllu. Bæjarráð lítur á það sem eitt af sínum meginverkefnum að vinna bug á atvinnuleysi og auka lífsgæði og hvetur ríkisstjórnina og Alþingi til hins sama. Skorar bæjarráð Grindavíkur því á ríkisstjórnina að standa ekki í vegi fyrir þeim aðilum sem vilja fjárfesta á lögmætan hátt á Íslandi.“


Vegna ályktunar meirihlutans lögðu fulltrúar G- og S-lista fram bókun þar sem segir:
„Við teljum enn fjölmörgu ósvarað í málefnum HS Orku og Magma Energy. Að því sögðu teljum við ekki tímabært að álykta um málið og viljum þess í stað bíða eftir áliti þeirrar nefndar sem nú vinnur að því að skera úr um lögmæti sölunnar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024