Harkaleg skoðanaskipti um leikskólamál
Harkaleg skoðanaskipti urðu í langri umræðu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ vegna ungbarnagæslu í sveitarfélaginu. Stefna Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn er að bjóða öllum foreldrum barna frá 9 mánaða til 2ja ára 30 þúsund króna greiðslu á mánuði og bjóða öllum börnum leikskólapláss frá 2ja ára aldri. A-listinn vill hins vegar að leikskólarnir taki við börnum frá 12 mánaða aldri.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri, gat þess í máli sínu áherslur Reykjanesbæjar fælust í því að öll börn eldri en 2ja ára í Reykjanesbæ fengju leikskólapláss. Það væri meira heldur en mörg önnur sveitarfélög gætu státað sig af. Á sama tíma og þau segðust bjóða upp á leikskólapláss fyrir 18 eða 12 mánaða börn væru þau með langa biðlista. Árni gat þess að í næstu framtíð yrði farið í uppbyggingu á þremur leikskólum til að fylgja stefnu Reykjanesbæjar í þessum málaflokki. Árni sagði uppeldisfræðileg rök fyrir því að bjóða ekki börnum yngri en 2ja ára leikskólapláss þar sem tvö fyrstu árin í lífi barnsins væru afar mikilvæg.
Sveindís Valdimarsdóttir, fulltrúi A-lista, gaf lítið fyrir þau rök og taldi leikskólana, sem og dagmæður, vel geta sinnt þeim þáttum sem mikilvægir væru í lífi barna fyrstu tvö æviárin. Benti hún að að leikskólar sem byggðu á samstarfi við dagmæður varðandi yngstu börnin væru starfandi víða um land. Vel væri ef þeir sem hefðu til þess fjárhagslegar aðstæður gætu verið heima með börnin en sú væri alls ekki raunin með alla.
„Ég kem aldrei til með að segja að þetta sé góður kostur,“ sagði Sveindís um stefnu D-listans.
Eysteinn Jónsson (A) sagði að þrátt fyrir stefnu Sjálfstæðismanna væri verið að opna 28 pláss hjá dagforeldrum á háskólasvæðinu sem Reykjanesbær tæki þátt í að niðurgreiða. Þar væru börn tekin inn 6 mánaða gömul.
Bæjarfulltrúar voru sammála um að lengja þyrfti fæðingarorlofið.
Mynd úr safni: Börn á leikskóla í Reykjanesbæ.