Harður jarðskjálfti skók Suðurnes
Suðurnesjabúar vöknuðu margir upp með harmkvælum á aðfaranótt miðvikudags, þegar harður jarðskjálfti skók nesið. Hann átti upptök sín við Hestfjall og mældist 6,5 á Richter. Reiknað er með fleiri skjálftum en ekki er talið að þeir verði eins snarpir eins og undangengnir skjálftar. Upptök þeirra munu mjög líklega færast vestar en næsta skjálfta er að vænta skammt frá Selfossi eða í Ölfusi, og hugsanlega á Bláfjalla- eða Krísvíkursvæðinu, en þó er ekki hægt að fullyrða neitt að svo stöddu.Barði Þorkelsson, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði að þeir hefðu talið öruggt, eftir skjálftann á laugardag, að fleiri stórir skjálftar myndu koma. „Smáskjálftar fóru fljótlega að þyrpa sér saman á ákveðna staði. Þeir voru fjölmargir, en ekki stórir, þeir stærstu um 3 á Richter. Grunur beindist strax að Hestfjalli. Við áttum reyndar ekki von á að hann yrði eins stór og hann varð, en það kom þó ekki mikið á óvart“, sagði Barði.Að sögn Barða hefur lítil skjálftavirkni verið í kjölfar skjálftans á aðfaranótt miðvikudags, og skjálftarnir hafa ekki þétt sig á ákveðnum staði ennþá. „Þetta eru smáskjálftar sem halda sig að mestu ennþá í sprungunni við Hestfjall. Þrátt fyrir að þeir halda sig að mestu á sama stað þá eru smærri skjálftar á víð og dreif um allt skjálftabelti Suðurlands. Stærsti skjálftinn kom kl. 13 á miðvikudag og mældist 3,2. Upptök hans voru ekki langt frá Ingólfsfjalli. Við lítum svo á að stórskjálftavirknin færist til vesturs, en við getum ekki ennþá fullyrt hvar næsti stóri skjálfti verður. Það gæti skýrst í dag þegar skjálftarnir, ef skjálftarnir fara að þétta sig. Það má þó reikna með jarðskjálfta skammt fyrir austan Selfoss eða í vestanverðu Ölfusinu, þeir gætu orðið um á 6 Richter. Ef virknin heldur áfram til vesturs, þá verða þeir helst í Bláfjöllum, Brennisteinsfjöllum og hugsanlega vestast við Kleifarvatn. Ég tel líklegt að skjálftar á því svæði verði enn minni, kannski 5-5,5 á Richter“, sagði Barði.