Harður árekstur á Reykjanesbraut í morgun
Þrír menn voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar eftir harðan árekstur á Reykjanesbraut á Vogastapa á níunda tímanum í morgun. Gömul jeppabuifreið og fólksbifreið rákust saman á brautinni á móts við veginn að Háabjalla. Tvær sjúkrabifreiðar og allt tiltækt lögreglulið var sent á vettvang, enda áreksturinn harður.Talsverðan tíma tók að búa um ökumann jeppabifreiðarinnar til flutnings með sjúkrabifreið, en þeir sem voru í fólksbílnum gengu óstuddir í sjúkrabíl. Allir mennirnir eru til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en ekki hefur komið til þess að flytja slasaða til Reykjavíkur. Nánari upplýsingar um tildrög slyssins var ekki að hafa, þar sem lögreglumenn voru enn að störfum á vettvangi.