Harður árekstur á Reykjanesbraut
All harður árekstur varð laust fyrir kl. 09:00 í gærmorgun á gatnamótum Reykjanesbrautar og Aðalgötu ofan við Keflavík. Leigubíl var ekið af Aðalgötunni og í veg fyrir fólksbíl sem ekið var Reykjanesbrautina í austur. Tvennt var í bílunum, ung ófrísk kona og karlmaður á 73. aldursári. Konan, sem ók fólksbílnum, var flutt til sjúkrahússins í Keflavík til læknisskoðunar en hún kenndi til í hálsi og í baki. Meiðsl hennar voru þó ekki talin alvarleg. Ökumann leigubílsins sakaði ekki.