Harðsnúinn Reykjanesbær mætir Akranesi
Hið harðsnúna lið Reykjanesbæjar, sem skipað er þeim Baldri Þóri Guðmundssyni, Huldu G. Geirsdóttur og Grétari Þór Sigurðssyni, mætir liði Akraness á föstudaginn í annarri umferð spurningakeppninnar Útsvars á RÚV. Liðið vann eftirminnilegan sigur á liði Garðabæjar í síðustu umferð, þegar það „hraunaði“ yfir Garðbæingana, eins og Baldur orðaði það svo skemmtilega, og sló um leið stigamet vetrarins en liðið rakaði inn 105 stigum á móti 39 stigum Garðbæinga og mátti því vel skilja gremju Vilhjálms Bjarnasonar sem gaf þeim spaugstofumönnum ekkert eftir þetta kvöld.
Lið Reykjanesbæjar og Akraness hafa áður att saman kappi, nú síðast í mars í æsispennandi viðureign þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu spurningu með sigri Reykjanesbæjar, 82 - 76. Það er því ljóst að von er á hörkukeppni og góðri skemmtun fyrir framan skjáinn á föstudagskvöldið kl. 20.05 en áhugasamir geta einnig lagt leið sína í sjónvarpssal og hvatt liðið áfram þar.