Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Haraldur slökkviliðsstjóri hættir eftir 50 ára starf
Föstudagur 4. febrúar 2005 kl. 10:50

Haraldur slökkviliðsstjóri hættir eftir 50 ára starf

Haraldur Stefánsson slökkviliðsstjóri  á Keflavíkurflugvelli hefur látið af störfum eftir 50 ára farsælt starf hjá varnarliðinu.

Haraldur Stefánsson hefur gegnt starfi slökkviliðsstjóra undanfarin 19 ár og hefur hróður hans og slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli borist víða fyrir frábæran árangur í brunavörnum og flugöryggi. Haraldur hóf störf hjá slökkviliði varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli árið 1955, varð aðstoðarslökkviliðsstjóri árið 1968, varaslökkviliðsstjóri 1978 og slökkviliðsstjóri árið 1986.

Slökkvilið varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli er skipað íslenskum starfsmönnum sem annast brunavarnir allra mannvirkja á varnarsvæðunum, að meðtalinni flugstöð Leifs Eiríkssonar, og gæta öryggis allra flugvéla sem leið eiga um flugvöllinn. Keflavíkurflugvöllur er alþjóðaflugvöllur og eini varaflugvöllur tuga og hundruða flugvéla sem daglega leggja leið sína yfir norðaustanvert Atlantshaf. Jafnframt er þar varnarstöð Atlantshafsbandalagsins og fjölmennur þéttbýliskjarni með 600 stórum byggingum og öðrum mannvirkjum sem sum hver eru hin stærstu sinnar tegundar á landinu.  Rík áhersla er á öflugt eldvarnaeftirlit og öryggis- og björgunarþjónustu við flugvélar þ. m. t. hálkuvarnir á flugbrautum og athafnasvæðum flugvéla sem er um 1, 6 milljón fermetrar að stærð.  Að auki sjá starfsmenn slökkviliðsins um hreinsun hættulegra efna, hleðslu og Þjónustu við herflugvélar sem leið eiga um flugvöllinn og rekstur sérstaks öryggisbúnaðar er stöðvar orrustuþotur í lendingu.

Haraldur slökkviliðsstjóri hefur á ferli sínum verið leiðandi í skipulagi öryggismála á Keflavíkurflugvelli.  Átti hann m.a. ríkan þátt  í þeim árangri sem varð í fyrirbyggjandi eldvörnum og yfirtöku slökkviliðsins á hálkuvörnum og öðrum flugöryggisþáttum er hann var varaslökkviliðsstjóri á áttunda áratugnum. Haraldur hefur sýnt mikla stjórnunarhæfileika og útsjónasemi í starfi sínu og verið óþreytandi við að þróa nýungar. Þá hefur hann aflað sér og mönnum sínum víðtækrar menntunar og þekkingar og miðlað af þeim brunni jafnt innanlands sem utan. Hefur hann m.a. sinnt ráðgjöf á vegum Bandaríkjaflota og haldið fyrirlestra um bruna- og flugöryggismál víða um heim og nýtur mikillar virðingar fyrir reynslu og þekkingu. Þá hefur slökkviliðið unnið til fjölda verðlauna undir hans stjórn og ítrekað verið vali besta slökkvilið Bandaríkjaflota.

Í hófi sem samstarfsmenn og félagar Haraldar héldu honum og eiginkonu hans, Erlu Ingimarsdóttur, og fjölskyldu nýverið færðu yfirmenn varnarliðsins Haraldi þakkir og æðstu viðurkenningu sem borgaralegum starfsmanni Bandaríkjaflota hlotnast fyrir störf sín, „Navy Meritorious Civilian Service Award“.

Haraldur var sæmdur Riddarakrossi hinar íslensku fálkaorðu árið 2003. Við starfi hans tekur Sigurður Arason varaslökkviliðsstjóri sem einnig á að baki áratuga starf í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024