Hans og Gréta í Frumleikhúsinu
Leikfélag Keflavíkur frumsýnir hið sígilda barnaleikrit, Hans og Grétu, í Frumleikhúsinu kl. 16 á sunnudag. Ekki er um hefðbundna útfærslu að ræða því leikstjóri verksins, Steinn Ármann Magnússon, hefur bætt við þremur atriðum í viðbót. „Ég skrifaði inn þrjú atriði í viðbót til að fjölga hlutverkunum svo allir gætu verið með," sagði Steinn í samtali við Víkurfréttir. „Við erum til dæmis komin með skógarbjörn og nýjan karakter sem heitir Tobías." Æfingar hafa staðið frá því í lok febrúar.
Önnur skemmtileg nýbreytni við uppsetningu leikfélagsins er tónlistin, en öll tónlist er leikin á staðnum af hljómsveitinni Steinum auk þess sem þeir sjá um leikhljóð. Þeir félagar hafa einnig samið alla tónlist og marga af textunum í samstarfi við Stein Ármann.
„Það gerðist bara eitthvað meiriháttar hjá okkur þegar við settumst niður saman til að hugsa út tónlistina," segir Steinn Ármann og er óhætt að taka undir þau orð því lifandi flutningurinn setur skemmtilegan svip á sýninguna.
Steinn Ármann er ekki alls ókunnur hér Suður með sjó því Hans og Gréta er þriðja leikverkið sem hann stýrir hjá Leikfélagi Keflavíkur. „Þetta er mitt fólk. Ég leikstýrði mínu fyrsta verki, Barpar, hér árið 2001 og stýrði svo Með álfum og tröllum í janúar fyrra. Aðstaðan hér er alveg frábær og það er mjög gaman að fá að starfa með einu elsta og öflugasta leikfélagi landsins."
Leikritið er aðallega hugsað sem barna- og fjölskylduskemmtun, en Steinn segir að allir ættu að geta skemmt sér. „Við höfum svona húmor í þessu til að ná til sem flestra, en það ætti allaveganna engum að leiðast!"
Miðasala verður á milli 18 og 20 á föstudag og laugardag í Frumleikhúsinu, en þar að auki er hægt að panta miða í símsvara á daginn í síma 421-2540.
VF-mynd/ Þorgils