Handtekinn fyrir sölu og dreifingu fíkniefna
Lögreglan á Suðurnesjum handtók fyrir fáeinum dögum karlmann um þrítugt sem grunaður er um sölu og dreifingu fíkniefna. Þegar lögregla gaf honum merki um að stöðva bifreið sína við hefðbundið eftirlit kastaði hann þremur fíkniefnapakkningum út úr bílnum. Við leit í bifreið hans fannst dunkur með slatta af kannabisefnum og minnisbækur sem haldlagðar voru vegna gruns um að það væru sölu- og skuldalistar. Þá var umtalsverð fjárhæð, sem hann var með á sér, einnig haldlögð. Hann var, auk þessa, grunaður um fíkniefnaakstur.
Við húsleit heima hjá manninum, að fenginni heimild, fannst svo nokkuð af fíkniefnum til viðbótar, óþekktar töflur, meint þýfi og tæki og tól sem bentu til sölu fíkniefna.
Einstaklingur sem var á heimili mannsins þegar lögregla gerði húsleit var einnig handtekinn og færður á lögreglustöð. Á viðkomandi fundust fíkniefni.