Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Handlagnir heimilismenn sem kunna að bjarga sér
Lighthouse Inn á Garðskaga. Ferðamannastraumurinn á svæðinu hefur aukist síðustu ár.
Sunnudagur 20. ágúst 2017 kl. 05:00

Handlagnir heimilismenn sem kunna að bjarga sér

Þrír bræður úr Garðinum opnuðu hótelið Lighthouse Inn

„Það byrjaði mjög rólega fyrstu vikurnar, en síðan þá er búið að vera brjálað að gera,“ segir Gísli Heiðarsson, en hann og bræður hans, Einar og Þorsteinn, opnuðu hótelið Lighthouse Inn, sem staðsett er á Garðskaga, fyrr á þessu ári.

Áður höfðu bræðurnir rekið stóra fiskvinnslu og áttu þar að auki nokkrar íbúðir á svæðinu sem þeir hófu að leigja út. Sex árum síðar ákváðu þeir að stækka aðeins við sig sem endaði með 1300 fermetra hóteli með 26 herbergjum. „Þetta litla verður alltaf aðeins stærra þegar maður er búinn að teikna það upp og svona og það endaði bara í þessu. Fólki finnst mjög gaman að vera hérna á Garðskaganum. Þetta er svolítið öðruvísi, náttúran og rólegheit. Það er eiginlega búið að vera fullt hjá okkur síðan við opnuðum,“ segir Gísli og bætir því við hógvær að lítið mál sé að stækka hótelið seinna meir, en leyfi sé fyrir því að bæta við átján herbergjum í viðbót.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Bræðurnir Einar, Þorsteinn og Gísli.

Hann segir gesti hótelsins ná að hvílast vel í kyrrðinni á svæðinu. „Hér eru engir bílar að keyra fram hjá og mikil rólegheit. Fólk sem kemur hingað vaknar oft ekki einu sinni í morgunmat, það bara sefur til ellefu.“

Gísli segir samstarf bræðranna ganga vel en auk þeirra þriggja komu aðeins örfáir einstaklingar að framkvæmdunum sem tóku um ár. „Það er mjög gott bræðralag okkar á milli. Það er ekkert vesen hjá okkur, við skiptum bara með okkur verkum og það gengur vel.“ Enginn bræðranna er þó lærður smiður. „Við erum bara handlagnir heimilismenn og kunnum að bjarga okkur. Við höfum lært það í gegnum tíðina.“

Ferðamannastraumurinn á svæðinu hefur aukið síðustu ár og Gísli segir Markaðsstofu svæðisins hafa auglýst Reykjanesið mikið. „Ef við náum að halda ferðamönnunum á svæðinu í svona þrjá daga þá er það mjög fínt. Við reynum að fá gestina til að labba út á Garðskaga og fá sér að borða og svona, á veitingastaðnum Röstinni. Fólki líkar sá veitingastaður mjög vel.“

Bókunum fyrir næsta ár rignir inn og á Gísli von á því að á næsta ári verði brjálað að gera. „Hver veit nema við stækkum, við sjáum til. Ferðamannastraumurinn til Íslands er að aukast.“