Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Handlaginn viðskiptafræðingur í bæjarstjórastól Grindavíkur
Föstudagur 6. janúar 2017 kl. 10:00

Handlaginn viðskiptafræðingur í bæjarstjórastól Grindavíkur

Hlakkar til þátttöku í spennandi samfélagi

Grindvíkingar réðu sér nýjan bæjarstjóra á dögunum en sá heitir Fannar Jónasson og er 59 ára Rangæingur. Fannar tók til starfa 2. janúar og var rétt búinn að koma sér fyrir í bæjarstjórastólnum þegar blaðamaður náði af honum tali. „Mér líst vel á þetta bæjarfélag og þetta starf leggst virkilega vel í mig,“ segir Fannar léttur í bragði. Hann viðurkennir að hann þekki ekkert sérstaklega vel til Grindavíkur en hefur þó fundist utan frá að þar sé sterkt atvinnulíf og blómlegt íþrótta- og menningarlíf. Hann hlakkar til að vera þátttakandi í samfélaginu en hann mun flytja til Grindavíkur ásamt konu sinnu og yngstu dóttur á næstu vikum.

Fannar er austan úr Rangárvallasýslu að ætt og uppruna og ólst þar upp. Hann bjó á Hellu lengst af en fjölskyldan á einnig jörð og sumarhús fyrir austan. Fannar var í sveitastjórnarmálum í Rangárvallasýslu í rúm 20 ár þar sem hann var meðal annars oddviti. Hann er viðskiptafræðingur að mennt og rak sitt eigið fyrirtæki fyrir austan um árabil áður en hann réði sig til starfa hjá Arionbanka í Reykjavík fyrir rúmum áratug. Síðast starfaði hann sem fjármálastjóri hjá Fálkanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fannar tekur við starfinu af Róberti Ragnarssyni sem hafði verið bæjarstjóri frá árinu 2010. „Hér er öflugur sjávarútvegur og Grindavík er mjög vaxandi bær. Það er 50% aukning  íbúafjölda hér á síðustu 20 árum og 25% á síðustu tíu árum, sem er langt yfir landsmeðaltali. Ég kann vel við mig í sveitafélagi sem er af þessari stærðargráðu eða minna,“ segir Fannar aðspurður um tækifærin í Grindvík. Fannar er rekstrarmaður í grunninn og hlakkar hann mikið til þess að heimsækja fyrirtækin í Grindavík og kynnast starfsemi þeirra.

Þegar frítími gefst þá kann Fannar afar vel við sig á hestbaki eða með hamar í hönd. Á jörð fjölskyldunnar byggði hann meðal annars sumarhús og dyttar reglulega að úthúsunum. „Ég er mikill áhugamaður um smíðar og er svokallaður „hobbýsmiður.“ Ég fór meira að segja í Fjölbrautaskólann í Breiðholti ekki alls fyrir löngu og lærði húsasmíði. Ég ber mikla virðingu fyrir góðum iðnaðarmönnum en tel mig ekki vera í þeim hópi,“ segir Fannar sem fékkst meðal annars við smíðavinnu sem ungur maður.