Hamingjan og stjórnmál áttu ekki samleið
Anna Lóa Ólafsdóttir hættir í bæjarstjórn Reykjanesbæjar
Anna Lóa Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar og forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, hefur óskað eftir því að vera leyst frá störfum í bæjarstjórn út kjörtímabilið og mun Kolbrún Jóna Pétursdóttir, 3. maður á lista Beinnar leiðar, taka sæti sem bæjarfulltrúi.
Anna Lóa hefur síðasta árið dvalið á Akureyri þar sem hún starfar hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og hyggst nú setjast að fyrir norðan þar sem henni líkar lífið vel. „Fyrir það fyrsta þá var ég bara á ákveðnum tímamótum í fyrra. Synir mínir að flytja að heiman, ég að selja húsnæðið og að leita mér að nýrri vinnu. Svo er það ekkert leyndarmál að ég var komin í of mörg verkefni og það þurfti eitthvað að láta undan. Þannig að ég ákvað að taka mér ár til þess að hugsa málið um hvað ég skildi gera. Nú eru bara nýir tímar og ég er að flytja. Ég átti æðisleg tíu ár í Reykjanesbæ þar sem ég fékk mörg tækifæri og kynntist dásamlegu fólki,“ segir Anna Lóa í samtali við Víkurfréttir.
„Fyrst og fremst er ég þó fylgin sjálfri mér og ég myndi aldrei sinna einhverju ef ég teldi mig ekki geta gert það 100%. Ég gaf mig alla í þetta í rúmlega ár.“ Anna Lóa fékk tækifæri fyrir norðan til þess að vinna við það sem hún ann heitast, sem er kennsla og ráðgjöf hjá SÍMEY á Akureyri. „Það sem ég stend og fell með er að ég geti verið 100% í þeim störfum sem ég lofa mér í. Þetta á að heita 20% hlutfall í pólitíkinni sem mér finnst hreint með ólíkindum. Ég er manneskja sem hef alltaf unnið mikið og verið í námi samhliða vinnu en sjaldan kynnst svona mikilli vinnu. Sveitarstjórnarmenn um allt land eru að leggja á sig gríðarlega mikla vinnu – sem er oft vanmetin.“
Anna Lóa hefur mikið fengist við að skrifa en hún heldur úti Hamingjuhorninu á Facebook og á netinu. Það hefur undið upp á sig og Anna heldur fyrirlestra víða þar sem hún boðar fagnaðarerindi hamingjunnar. „Þetta er bara barnið mitt. Ég fann það alveg að þetta tvennt átti ekki alveg saman. Allt í einu fækkaði fyrirlestrunum mikið sem mér fannst neikvætt því þar tel ég mig einmitt vera að hafa áhrif á fullt af fólki. Það var búið að vara mig við, fólk sagði við mig að pólitíkin og hamingja ættu ekki samleið, en ég er þrjósk og trúði því ekki fyrr en á reyndi. Núna er ég farin að rúnta um allt með hamingjuna hér á Norðurlandi og víðar, þannig að þegar upp er staðið þá trúi ég því að ég sé að hafa áhrif á samfélagið, þó með öðrum hætti sé,“ segir Anna Lóa hress að lokum.