Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Halli bæjarsjóðs rúmar 830 milljónir
Miðvikudagur 8. desember 2004 kl. 12:41

Halli bæjarsjóðs rúmar 830 milljónir

Rúmlega 830 milljóna króna halli verður á bæjarsjóði á þessu ári samkvæmt endurskoðaðri fjárhagsáætlun sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi. Gert var ráð fyrir 4 milljóna króna rekstrarafgangi í upphaflegri fjárhagsáætlun sem lögð var fram í lok síðasta árs. Hart var tekist á um málið á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi og lögðu bæði minnihluti og meirihluti fram bókanir vegna málsins.
Minnihluti Samfylkingar og Framsóknarflokks lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þróunarinnar og krefst þess í bókun að gripið verði til annarra vinnubragða. Í bókun minnihlutans segir:  „Þegar upphafleg fjárhagsáætlun var samþykkt í lok síðasta árs var gert ráð fyrir 4 milljón króna rekstrarafgangi. Niðurstaðan er því verri sem nemur 837 milljónum eða 23% af heildartekjum bæjarsjóðs sem nema um 3,5 milljörðum króna.
Á síðasta ári var rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs neikvæð um rúmar 800 milljónir, en þá var hallinn fjármagnaður með söluhagnaði fasteigna, sem ætlaður var til niðurgreiðslu skulda. Slíkum söluhagnaði er hins vegar ekki til að dreifa á þessu ári og því ljóst að ef ekki tekst að ná tökum á rekstri bæjarins stefnir í algjört þrot á nokkrum árum," segir m.a. í bókun minnihlutans vegna málsins.
Segir einnig í bókuninni að þótt margt gott hafi verið gert á síðustu árum þá sjái það allir að ekki sé hægt að halda áfram á þessari braut. „Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafi getu til þess að taka upp önnur vinnubrögð. Fyrirhugaðar framkvæmdir sem kynntar hafa verið gefa tilefni til að ætla að áfram verði keyrt umfram áætlanir og að Reykjanesbær verði skuldum vafinn í lok þessa kjörtímabils."

Meirihluti bæjarstjórnar lagði einnig fram bókun vegna málsins þar sem segir í framhaldi af góðri rekstrarniðurstöðu árið 2003 hafi Reykjanesbær fjárfest í mjög mikilvægum verkefnum fyrir framtíð bæjarins. „Góð eignastaða Reykjanesbæjar leyfir að farið sé í slíkar fjárfestingar. Þessum aðgerðum er ætlað að skila auknum tekjum í bæjarsjóð vegna fjölgunar bæjarbúa og betri atvinnutækifæra þeirra.
Samfylkingunni og Framsókn er velkomið að vinna þetta með sjálfstæðismönnum og öllum góðum ábendingum fagnað nú sem fyrr," segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

Ljósmynd/Oddgeir Karlsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024