Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Halldóra K. Magnúsdóttir ráðin skólastjóri í Grindavík
Fimmtudagur 23. febrúar 2012 kl. 11:01

Halldóra K. Magnúsdóttir ráðin skólastjóri í Grindavík



Bæjarráð Grindavíkur samþykkti á fundi sínum í gær að ráða Halldóru K. Magnúsdóttur í starf skólastjóra Grunnskóla Grindavíkur og felur sviðsstjóra fræðslu- og félagsþjónustusviðs að ganga frá ráðningarsamningi. Staða skólastjóra Grunnskóla Grindavíkur var fyrst auglýst 14. janúar sl. með umsóknarfresti til 13. febrúar sl. Ellefu umsóknir bárust um stöðuna.

Leitað var til Ingvars Sigurgeirssonar prófessors við Kennaradeild Háskóla Íslands um aðstoð við að leggja mat á hæfni umsækjenda. Eftir mat á umsóknum og viðræður við meðmælendur varð það niðurstaðan að boða sjö umsækjendur í viðtöl. Viðstödd viðtölin voru bæjarstjóri, sviðsstjóri félagsþjónustu- og fræðslusviðs og allir kjörnir fulltrúar í fræðslunefnd.

Við mat á umsóknum var stuðst við gátlista þar sem m.a. er litið til menntunar umsækjenda, framhaldsmenntunar á sviði stjórnunar, annars framhaldsnáms, annars náms á háskólastigi, námsárangurs, námskeiða og endurmenntunar, starfsreynslu innan og utan skólakerfisins, kennslu- og stjórnunarreynslu, reynslu af skólaþróun og reynslu af eigin námskeiðahaldi. Aflað var upplýsinga um ritfærni og íslenskukunnáttu, þekkingu og færni í tölvu- og upplýsingatækni og kunnáttu í erlendum málum. Þá var leitast við að leggja mat á umsækjendur út frá viðtölum við umsagnaraðila með tilliti til annarra færniþátta. Skýrslan Mat á hæfni umsækjenda um stöðu skólastjóra Grunnskóla Grindavíkur liggur fyrir fundinum.

Sviðsstjóri félagsþjónustu- og fræðslusviðs telur að þegar litið er til allra þátta auglýsingar um menntun og faglega hæfni sé Halldóra K. Magnúsdóttir hæfasti umsækjandinn og leggur til að henni verði boðið starfið. Fræðslunefnd styður tillögu sviðsstjóra og leggur til við bæjarráð að hún verði samþykkt.

Halldóra starfar nú sem aðstoðarskólameistari í Akurskóla en tekur til starfa 1. maí nk. sem skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur.

Grindavík.is greinir frá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024