Halla Ben nýr umsjónarmaður Jónshúss í Kaupmannahöfn
-okkur hjónunum hlakkar mikið til að flytjast inn í þetta sögufræða hús
Keflvíkingurinn og hönnuðurinn Halla Benediktsdóttir hefur verið ráðin umsjónarmaður Jónshúss í Kaupmannahöfn sem er nú félagsheimili Íslendinga, minningarsafn um Jón Sigurðsson og Ingibjörgu og bókasafn auk þess sem ýmiss félög hafa aðstöðu í húsinu.
Halla hefur búið og starfað í kaupmannahöfn ásamt fjölskyldu sinni frá árinu 2009 og hefur hún að eigin sögn verið virkur notandi Jónshúss frá upphafi. Það hvarlaði þó ekki að henni að sækja um starf umsjónarmanns þegar hún frétti að það væri laust til umsóknar en eftir áeggjan vinkvenna lét hún til skarar skríða.
„Ég mæti í Jónshús nokkrum sinnum í hverri viku. Á laugardögum er íslenskuskóli í húsinu og ég hef verið svo heppin að vera kennarinn. Þar fæ ég tækifæri til að kenna stórum hópi af íslenskum börnum íslensku,“ segir Halla en einnig fer fram öflugt félagsstarf í húsinu.
„Eitt af hlutverkum Jónshúss er að vera rammi utan um félagsstarf hinna fjölmörgu Íslendinga sem búa í Kaupmannahöfn. Ég er í hópi kvenna sem standa fyrir prjónakvöldum en fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði mæta félagar Garnaflækjunnar í Jónshús með prjónana. Í Jónshúsi er líka fundaraðstaða fyrir hin ýmsu félög Íslendinga, Ég er formaður í einu þeirra og fundum við í Félagi kvenna í atvinnulífinu í Danmörku í Jónshúsi.“
Halla hefur fengist við fjölda verkefna í Kaupmannahöfn, bæði sem kennari og hönnuður.
„Ég hef verið að kenna íslenskum börnum í Kaupmannahöfn og Hróarskeldu íslensku sem hefur verið skemmtileg tilbreyting frá því að prjóna og hanna. Verkefni mín sem hönnuður eru fjölbreytt, ég hef t.d. verið að hanna og prjóna fyrir danskan fatahönnuð, Anne Sofie Madsen og þá hef ég hannað prjónauppskriftir fyrir nýtt íslenskt garn sem heitir einrúm. Nú svo er ég prjónahönnuðurinn Halla Ben að prjóna og hanna mínar eigin vörur,“ segir Halla en hún er þekkt fyrir útfærslu sína og ást á íslensku ullinni.
„Ég er heilluð af íslensku ullinni og hef unnið að því að kynna hana hér í Kaupmannahöfn m.a. með því að halda stóra prjónaviðburði. Nú er ég að undirbúa prjónaviðburð undir yfirskriftinni „Íslandske strikkedage“ sem verður haldinn í september á Nordatlantens Brygge sem er menningarhús Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga.“
Verkefnin sem bíða Höllu í Jónshúsi er fjölmörg, húsið er stórt og rúmar allskonar starfsemi. Halla mun taka við starfinu 1. september og mun hún að eigin sögn leggja sig fram við að feta í fótspor Jóns núverandi umsjónarmanns sem hefur unnið gott starf að hennar mati.
„Stór hluti verkefnanna er í föstum skorðum en með nýjum starfsmanni koma nýjar áherslur. Núna eru Danir og Íslendingar sem búa í Danmörku að hefja sitt sumarfrí og ég geri ráð fyrir að setja mig hægt og rólega í þetta spennandi starf í ágúst. Okkur hjónum hlakkar mikið til að flytja inn í þetta sögufræga hús og búa á Østervoldgade næstu þrjú árin“.
Halla kennir konum að prjóna á Akureyri
Halla talar í Jónshúsi við konur í félagi kvenna í atvinnulífinu í Danmörku FKA-DK